Hreinsunardagur Hlíðarvatn 29. apríl

Núna á laugardag 29. apríl 2017 fer fram árleg hreinsun við Hlíðarvatn.

Félagar eru hvattir til að mæta  til að ganga strandlengjuna og hreinsa upp allt rusl sem veturinn (eða reyndar sennilega bara við mannfólkið) hefur fært þessari perlu okkar. Eins eru verk sem þarf að vinna við veiðihús okkar. Að hreinsun lokinn er jafnvel opið fyrir að félagsmenn nái að skola vetrarrykið af línunum sínum með smá veiði, og vorrykið úr kverkunum með kaffi og kannski einhverju meira í veiðihúsi félagsins.

Við í stjórn Ármanna vitum einungis af einum manni sem hefur sagst eiga nóg af stöngum og við höldum að hann sé hættur að veiða og farin alfarið í golfið. Til að forða fleirum frá þeim ósköpum spratt upp sú hugmynd á bíókvöldi nú í vikunni að leyfa veiðimönnum að gera samanburðarpróf á nokkrum flugustöngum og prófa þær við vatnið eftir hádegið að lokinni hreinsun. ÁRVÍK mun af þessu tilefni bjóða veiðimönnum að prófa fimm gerðir af Scott stöngum við vatnið. Prófunin fer fram á Mölinni, sem er veiðistaður í nágrenni húss SVH,  milli kl. 14:00 og 17:00.