Framvatnaferð – aflýst

Framvatnaferð Ármanna, júní 2017

VINSAMLEGAST ATHUGIÐ – FRAMVATNAFERÐ ER AFLÝST VEGNA ÁSTANDS VEGA AÐ FJALLABAKI.

Nýjar fréttir af færð má sjá með því að smella hérna.

Upprunaleg frétt:

Hin árlega Framvatnaferð Ármanna verður farin síðustu helgina í júní og býðst félagsmönnum að gista í skála við Landmannahelli eða á eigin vegum. Skáli stendur Ármönnum til reiðu að kvöldi 23. júní og fram á sunnudaginn, 25. júní. Gjald fyrir gistingu er 5.400,- pr. nótt.

Það skal tekið sérstaklega fram að það er engin kvöð að gista í skálanum, það er undir hverjum og einum komið hvort menn geri sér dagsferð inn að Framvötnum eða gisti eina eða fleiri nætur í eigin ferðavagni, já eða taki þetta alla leið og gisti í tjaldi við Landmannahelli.

Formleg dagskrá er ekki ráðgerð önnur en sú að Ármenn blanda geði eins og hver vill og fara einir eða í sameiningu til veiða þegar hverjum hentar. Duglegastir hafa Ármenn verið að ná sér í soðið í Frostastaðavatni, Ljótapolli og Dómadalsvatni. En ekki má gleyma öðrum vötnum á svæðinu sem vert er að heimsækja. Herbjarnarfellsvatn er rétt norð-vestan við Landmannahelli, en þar má setja í einstaklega skemmtilega urriða. Löðmundarvatn er austan við Landmannahelli þar sem tilvalið er að kynna yngri veiðimönnum fyrir dásemdum stangveiðinnar. Að auki er fjöldi annarra vatna á svæðinu sem má kynna sér með því að smella hérna ásamt korti og smá bæklingi sem hlaða má niður.