Framvatnadagsferð

Staðan á fjallvegum 20.6.2017

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar frá því í morgun eru hverfandi líkur á að að opnað verði fyrir umferð um Dómadal að Frostastaðavatni fyrr en í næstu viku, þ.e eftir 26. júní. Eins og staðan er núna þá er F225 – Landmannaleið opin frá þjóðvegi 26 inn að Landmannahelli en þar fyrir austan er lokað. Þar með er ófært að Dómadalsvatni, Lifrarfjallavatni og Eskihlíðarvatni.

Að sögn er vegurinn um Dómadal sem stórfljót á að líta og vatnsstaða á svæðinu með því mesta sem sést hefur um langt skeið. Vegurinn um Kringlu er blautur, mjög hætt við skemmdum og því er hann lokaður.

F208 – Fjallabaksleið nyrðri frá Sigöldu að Landmannalaugum hefur verið hefluð og er nú fær öllum fólksbílum þannig að vel fært er að Frostastaðavatni en ekki er ljóst hvort náist að opna veginn að Ljótapolli fyrir helgi, ef og þá líklega aðeins fyrir 4×4 bíla.

Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að afbóka gistingu Ármanna við Landmannahelli því aðeins virðist vera fært að Sauðleysu- og Herbjarnarfellsvatni, mögulega inn að Löðmundarvatni en þar er vatnsstaða óvenju há og engjarnar á kafi að sögn skálavarða við Landmannahelli í morgun og hætt við skemmdum á vegum og gróðri á þeim slóðum.

Það skal ítrekað að þrátt fyrir þessar ferðatakmarkanir um svæðið er ekkert sem mælir gegn því að Ármenn geri sér dagsferð um helgina inn að þeim vötnum sem fært er í, veðurspá helgarinnar lofar þurru veðri og þokkalega stilltu.