Vatnið í Dómadal – uppfærð frétt

Uppfærð frétt 14.07.2017

Skv. upplýsingum frá Vegagerðinni hefur nú verið opnað fyrir umferð um Dómadal, án takmarkana. Enn liggur þó vatn á veginum, en vel innan marka fyrir flesta bíla sem komast á annað borð yfir vöð á F225 Landmannaleið. Menn skildu þó gæta varúðar og ekki leggja í vatnið á minni fólksbílum.

Heimild: mbl.is og Vegagerðin

Upprunaleg frétt 13.07.2017

Skjáskot úr frétt RÚV

Eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum hefur nýtt stöðuvatn í Dómadal hamlað ferðum á milli Landmannahellis og Landmannalauga og þar með leið veiðimanna um Landmannaleið að Frostastaðavatni. Eins og ástandið er núna liggur Landmannaleið á u.þ.b. 40 cm. dýpi þar sem vatnið hefur breitt úr sér í dalnum.

Vatnið hefur sjatnað hægt en að sögn landvarðar er nú jafnvel útlit fyrir að opnað verði um Dómadal eftir viku, en fram að þeim tíma er möguleiki að sækja um undanþágu frá lokun fyrir 4×4 bíla á að lágmarki 35“ dekkjum. Sækja skal um undanþágu í síma 822-4083, 640-3613 eða 640-3614. Án undanþágu er vegurinn lokaður umferð við gatnamót Landmannaleiðar og vegarins inn að Landmannhelli við Fitjafell.

Einhver ummerki eru eftir utanvegaakstur á þessum slóðum og því rík ástæða til að hvetja menn til að virða þessa lokun því náttúran á þessum slóðum hefur sýnt mjög hægan bata eftir utanvegaakstur liðinna ára og víða má enn sjá svöðusár í gróðri sem eru allt að tuga ára gömul.

Þeir sem hafa beðið hafa óþreyjufullir eftir að komast í Frostastaðavatn er bent á að F208 frá Sigöldu er vitaskuld fær og því hægt að komast þá leið að vatninu.

Frétt þessa efnist má sjá í heild sinni á Sarpi RÚV með því að smella hérna.