Síðsumar í Hlíðarvatni

Sigþór Óli Árnason með sinn fyrsta flugufisk

Eftir nokkur mögur ár við Hlíðarvatnið kom óvæntur glaðningur upp í hendurnar á veiðimönnum í fyrra með aflatölum sem ekki höfðu heyrst þaðan í nokkur ár. Rétt eins og annars staðar hefur tíðarfarið það sem af er þessu sumri ekki verið sérstaklega hagstætt veiðimönnum og því hafa aflatölur úr Selvoginum ekki náð alveg sömu hæðum og í fyrra. Með stillum síðsumarsins hafa veiðitölur aftur á móti verið að glæðast á ný í Hlíðarvatni.

Margir telja ágúst mánuð vanmetinn í Hlíðarvatni, oft megi gera góða veiði þar síðla sumars og er fyrrverandi formaður Ármanna einn þeirra. Árni Þór var við annan og þriðja mann við vatnið í lok júlí og gerði ágætis veiði við Réttarnesið og í Kaldós. Fluga ferðarinnar var tvímælalaust Pheasant Tail sem hnýtt var úr rauðleitum fjöðrum.

Rauðleitur PT frá Kristjáni Friðrikssyni

Trú þessi á ágúst virðist hafa erfst til núverandi formanns, því hann ásamt spúsu sinni voru þar í byrjun vikunnar og gerðu ágætis veiði frá Kaldós og inn að Skollapollum og töluvert líf var einnig við Réttarnesið. Bleikjan var einnig inni í Botnavík, en hún var treg til töku hjá Kristjáni en þær flugur sem gáfu einna helst voru Toppflugan og PT úr rauðleitum fjöðrum.

Svipaða sögu er að segja af öðrum Ármönnum sem sótt hafa Hlíðarvatn, það eru helst eftirlíkingar toppflugu og smáar svartar mýflugur sem hafa verið að gefa og svo auðvitað Peacock. Bleikjan er greinilega byrjuð að kíkja inn í Botnavíkina og þar hefur að sögn verið mikið líf síðustu daga. Jakob Sindri Þórsson átti t.d. hressilegan dagspart í Botnavíkinni með Toppflugu í farteskinu.

Toppfluga Jakobs Sindra

Rétt er að benda á að enn eru einhverjir dagar lausir í Hlíðarvatni í þessum mánuði og þeim næsta, lausa daga má finna á leyfi.is Hvernig væri nú að nýta síðsumarstillurnar í Selvoginum og gera sér dagamun fyrir lítinn pening.