Rannsóknir í Framvötnum

Frostastaðavatn

Á Fésbókarsíðu Vina Landmannaafréttar, Veiðivatna o.fl. kom nýlega fram að 24. ágúst fóru starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar, þeir Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson inn að Frostastaðavatni og Eskihlíðarvatni þeirra erinda að skoða fiskistofna vatnanna. Að sögn bar mikið á smárri bleikju í vötnunum og var aflinn umtalsverður, í magni talið. Fiskurinn virðist hafa allnokkra fæðu, mest krabbasvif en minna um flugu og einhver dæmi voru um skötuorm í Frostastaðavatni.

Fyrstu óformlegu niðurstöður þessara athugana eru á svipaða lund og veiðimenn hafa tjáð sig um, þ.e. vötnin eru greinilega ofsetin og ekki veitir af að auka veiði verulega á þessum slóðum. Eins og Ármenn vita er málið okkur skylt þar sem við erum með langtímasamning um veiði í þessum vötnum og greinilegt að ástundun okkar er langt því frá að duga til að halda stofni bleikjunnar í skefjum. Meira verður að koma til ef búskilyrði bleikjunnar eiga að verða viðunandi á þessum slóðum, grisjunar er þörf.

Það væri stjórn Ármanna mikill fengur ef félagar sem hafa lagt leið sína í Framvötn í sumar, mundu senda okkur línu á armenn@armenn.is og greina stuttlega frá sinni upplifun af t.d. Frostastaðavatni; holda- og heilsufari fisksins ásamt öðru því sem þeir vilja koma á framfæri.

Endanlegra niðurstaðna úr leiðangri Hafrannsóknarstofnunar er að vænta í vetur og ef að líkum lætur munum við greina frá þeim hér og á félagsfundi / opnu húsi í vetur. Auðvitað ber að geta þess hér að lokum að það er alls ekki of seint að heimsækja vötnin, oft gefur fanta vel í Framvötnum þegar sumri fer að halla og skyggja tekur.