Skeinuhætt girni

Hvort kom á undan, veiðimaðurinn eða himbriminn? Vissulega er himbriminn ein mesta aflakló sem um getur við vötn landsins og hefur hann meira að segja verið nefndur til sögunnar sem áhrifavaldur lélegrar veiði í Botnavík í sumar sem leið. Eftir stendur að himbriminn var nú trúlega til staðar löngu áður en menn tóku sér bólfestu á Garðarshólma og ef mark er tekið á hinu fornkveðna; Fyrstur kemur, fyrstu fær þá hefur hann ákveðinn forgang á okkur þegar kemur að veiði.

Hér verður þessi saga ekki frekar rakin, heldur nefnd til sögunnar sú hætta sem fuglum á vötnum landsins stafar af girnisflækjum sem víða leynast. Fyrir nokkrum árum voru tveir Ármenn staddir við Hítarvatn á Mýrum og urðu þá varir við ungfugl sem heldur betur hafði flækt sig í girni sem hafði orðið viðskila við veiðihjól einhvers veiðimanns. Með útsjónasemi og elju var fuglinn fangaður í háf, girnið klippt utan af honum og síðan sleppt. Umræddir veiðimenn staðhæfa að eftir þetta hafi aflabrögð hjá þeim verið eindæma góð, engu líkara en fiskinum hafi beinlínis verið smalað á flugur þeirra.