Í aðdraganda Þorra

Nú líður að Þorra og Ármenn farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar. Þorrablót Ármanna verður haldið 27. janúar og þar verður eflaust glatt á hjalla. Enn eru örfá sæti laus á Þorrablótið og félagar hvattir til að skrá sig, hér á síðunni, með tölvupósti á armenn(hjá)armenn.is eða á þar til ætluðu blaði sem liggur frammi í Árósum.

Einn af föstum liðum Þorrablótsins er s.k. Þorrablótsræða og hafa ræðumenn ýmist slegið á lauflétta strengi eða gert hugðarefnum sínum skil. Fyrir síðasta Þorrablót var ræðumaður kvöldsins kynntur til sögunnar með eftirfarandi orðum; Ræðumaður kvöldsins er Kristján Friðriksson – veiðidellukall. Kristján er nýbyrjaður að veiða á flugu, búinn að vera Ármaður síðan í maí 2014, er hóflegri í aflabrögðum en eiginkonan, listahnýtari en virðist vera bara nokkuð venjulegur, eins og við hin. Eða hvað? Ræða Kristjáns fer hér á eftir og það er víst engin furða að hann hafi verið kallaður prófasturinn meðal félagsmanna eftir þetta kvöld.

Ármenn, góðir gestir
Árið 1866 kvað nafni minn, Jónsson Fjallaskáld þau þrjú erindi Þorraþræls sem okkur þykir sjálfsagt að syngja á mannamótum sem þessum. Raunar erum við að syngja þessi erindi heldur snemma á Þorra, því Þorraþræll er jú síðasti dagur Þorra, rétt áður en blessuð Góan byrjar og við förum að huga að viðhaldinu, þ.e. viðhaldi á veiðigræjum.

Það er fátt sem fer saman með veðurlýsingum Kristjáns og veðrinu eins og það hefur verið það sem af er vetrar. En það má nú samt til sannsvegar færa að það næði aðeins um okkur stangveiðimennina þessa dagana….já, það kveður kuldaljóð, það jafnvel frýs í æðum blóð. Stóriðjur, bæði á landi og í sjó, ásælast í auknu mæli hreina náttúru okkar og það má með sanni segja að ekki eru allir fylgifiskar þessara stóriðja jafn velkomnir. Strokugemlingar sjókvíaeldis hafa ekki aðeins áhrif í nánasta umhverfi þess, þeir hafa sporð, þótt tættur sé, og ferðast því hundruð kílómetra í leit að æti og búsvæði. Hún verður ekki lengi blá, báran sem marar á Vestfjörðum og í Eyjafirði ef fram fer sem horfir. Þar munu Norskættuð flökkudýr herja á auðlindakistur lax- og silungsveiði með ófyrirséðum afleiðingum. Hér þurfa veiðimenn að spyrna við fótum, taka sér stöðu með málleysingjum náttúrunnar.

Í dag höfum við að sama skapi vaxandi áhyggjur af viðkomu sjóbleikju í sífellt hlýnandi hafinu við Ísland. Sjávarhiti hækkar og bleikjan færir sig því norðar á hnöttinn í leit að kaldari sjó. Mér liggur við að segja að hér mættu því næða kuldaél, svona rétt aðeins til að draga úr hlýnuninni. Annars skilst mér að nágrannar okkar í vestri hafi fundið töfralausn við þessari hlýnun, hún heitir Trump og felst einfaldlega í því að loka augunum, þá verður ekkert að óttast. Hér á landi eru enn þeir aðilar til sem vinna ötullega að því að opna augu landsmanna fyrir yfirvofandi vá og þar á meðal er margir Ármenn, enda meðlimir í félagi um þjóðlega náttúruvernd og stangveiði með flugu, þegar þannig viðrar.

Já, blessað veðrið hefur vissulega áhrif á veiði og veiðimenn, jafnvel heilu vötnin eins og við þekkjum. Þegar illa viðrar, slævast veiðimenn og vötnin verða nánast dauðvona í sumra hugum, fá jafnvel viðurnefni eins og Dauðahafið. En þegar vel viðrar og fjör færist í veiðimenn, rísa vötnin úr Helju, brosa móti sól, sýna gamla takta og laðað okkur til sín. Nærtækast er að nefna frammistöðu Hlíðarvatnsins okkar á liðnu sumri sem gaf yfir 3000 fiska, langflesta veidda á aðal áhugmál okkar Ármanna, flugu.

Ég, líkt og margur annar veiðimaður, byrjaði þó ekki minn veiðiskap með flugu. Það var fjarska langt utan seilingar einhvers gutta á Eyrarbakka að verða sér úti um flugustöng til að egna fyrir sjóbirting í Ölfusá eða lax í grennd við ósinn. Já, hvort sem undanþágan var formleg eða bara manna í millum, þá var nú ekkert verið að agnúast út í okkur þótt við settum í lax í mjög söltu vatni. Í dag er gengið mun harðar eftir banni við laxveiði í sjó, það verður jú að tryggja að laxinn komist óáreittur upp í árnar. Svona breytast nú tímarnir og í dag er svo komið að menn sleppa fleiri löxum heldur en þeir hirða, mér liggur við að segja heldur en þeir veiða, enda ofveiði stangveiðimanna almannarómur. Sleppiskylda er komin í velflestar ár og víðast bannað að bregða maðki á öngul nema þá á bændadögum í Þjórsá, maðkur ku jú fara mun betur með netin neðan Urriðafoss heldur en fluga. Kaldhæðnin fer vonandi ekki framhjá neinum, en finnst mér þetta allt orðið eitthvað öfugsnúið. Stangveiði hefur mér vitandi aldrei orðið til þess að þurrka út fiskistofna, trúið mér ég hef verið að reyna það ötullega í Framvötnum á umliðnum árum og ekkert gengið.

Bóndi minn, þitt bú
betur stunda þú, orti Fjallaskáldið.

Ég held að mönnum væri nær að beina sjónum að útgerð netabænda þegar kemur að fækkun laxfiska, heldur en þeim tugum laxa sem enda á borðum stangveiðimanna.

Víst á veiða og sleppa rétt á sér, rétt eins og netaveiði. Þegar kemur að fóstursvæði okkar Ármanna uppi á hálendinu, þá skal ekki sleppa, nema þá sjálfum sér lausum í faðmi fjalla og fagurra vatna og njóta þess eins og kostur er að veiða í soðið, reyk, graf eða harðfisk. Í flestum Framvatna er ofgnótt fiskjar og því ber það í bakkafullan lækinn að sleppa þar bleikju og vissulega mætti vera meira um netaveiði í mörgum þessara vatna. Þjóðleg náttúruvernd getur allt eins snúist um að leiðrétta mannanna mistök, grisja ofsetin vötn og bæta þannig lífskilyrði fiskjarins.

Hér má ég til með að rifja upp kynni mín af tárvotum frönskum veiðimanni sem heilsaði upp á mig í aðgerð við Landmannahelli síðasta sumar. Ég er að vísu ekkert óvanur því að ferðamenn staldri við og gefi sig á tal við mig á þessum slóðum, en þessi var óvanalega þögull þegar hann virti nokkra tugi bleikja fyrir sér á aðgerðarborðinu. Aðspurður sagði hann mér að hann veiddi töluvert í Frakklandi og gerði sér meira að segja stundum ferð yfir til Sviss í bleikjuvötn. Með ekka í röddinni sagðist hann hafa komið hingað með bakpoka og gönguskó, en enga veiðistöng, hann bara vissi ekki af þessari paradís. Já, enn eru Framvötn ókannað svæði margra veiðimanna, meira að segja einstaka Ármanns.

Ókannaðar veiðilendur finnast víða á Íslandi og enn eigum við Ármenn margt ógert í trúboði okkar. Vissulega eru við sértrúarsöfnuður, en með þann göfugasta málstað veiðimanna sem þekkist. Og í dag eru hér samankomnir æðstu prestar okkar, rjómi veiðimanna, hógværar aflaklær og lítillátir vitringar. Margir hverjir fullir …… visku sem unga veiðimenn þyrstir í. Á ungum veiðimönnum er ekki sleppiskylda, við eigum að fanga þá, fóstra hér í musteri fluguveiðinnar fram til vors, hlúa að þeim og uppfræða um dásemdir stangveiði á flugu. Að vori getum við sleppt þeim á stefnumót við náttúruna í öllu sínu veldi.

Þegar vorar lyftist nefnilega brúnin á landanum og það hefur svo sannanlega gert það árið 1866 því Kristján Fjallaskál orti þá líka Vorvísur:

Nú andar sunnan blíður blær
og blóm í dala-skjóli grær
og lóan syngur ljóðin blíðu,
en lækir niða’ á engi fríðu,
nú allt er glatt og allt er kátt
og yngdan gleður sig við mátt.

Við þessi orð Fjallaskáldsins verður manni ósjálfrátt hugsað til allra okkar ósnortnu dala þar sem veiðivötn, rennandi og kyrrlát, bíða aðdáunar og ástundunar okkar á komandi sumri. Vorvísur Kristjáns ættu að fylla okkur tilhlökkun þótt naprir vindar blási nú um stundir.

Að þessu sögðu, óska ég öllum góðrar skemmtunar í kvöld.