Hnýtt á Íslandskortið

Í haust sem leið kom fram sú skemmtilega hugmynd að gefa Ármönnum kost á að hnýta uppáhalds flugurnar sínar og hengja þær á Íslandskort sem tiltæk væru í Árósum á hnýtingarkvöldunum, Skegg og skott sem haldin eru öll mánudagskvöld kl.20:00

Hugmyndin er sú að félagar sem áhuga hefðu á gætu hnýtt sínar uppáhalds flugur, þ.e. þær sem gefið hafa flesta eða eftirminnilegustu fiskana og nælt þær á Íslandskort sem þeir gætu fengið hjá félaginu.

Mánudaginn 15. janúar er fyrra hnýtingarkvöld Ármanna á þessum vetri sem haldið er undir þessum merkjum, hið síðara verður 29. janúar. Hver um sig hefur þann háttinn á þessu eins og hann vill, en gaman væri ef félagsmenn og gestir tækju þátt í þessari nýbreytni og næðu mögulega að hnýta nokkrar flugur á kortið sitt í vetur sem hengt yrði síðan upp í lok vetrar. Kortin yrðu félagsmönnum eflaust til gagns og gamans fyrir utan að flugur Ármanna hafa hingað til þótt töluvert stáss.

Félagsmenn eru hvattir til að taka með sér gesti, allir velkomnir og heitt á könnunni.