Febrúarflugur í Árósum

Líkt og undanfarin ár munu Ármenn styðja við Febrúarflugur, hnýtingarátak í febrúar. Líkt og á síðasta ári munu Ármenn opna dyr sínar á mánudagskvöldum í febrúar fyrir öllum þátttakendum í hnýtingarátakinu, sem og öðrum áhugamönnum um flugur og fluguhnýtingar.

Það vakti verðskuldaða athygli í fyrra að gestagangur hjá Ármönnum var mikill í febrúar og ekki óalgengt að 35 – 55 manns væru í húsi þessi mánudagskvöld sem tengdust Febrúarflugum. Stemning var góð og margar forvitnilega flugur hrutu úr hnýtingarþvingum félagsmanna og gesta þessi kvöld. Skipuleggjandi viðburðarins mun brydda upp á áhugaverðum kynningum þessi kvöld, m.a. landsþekktum hnýturum sem setjast við þvinguna í Árósum, kynna flugurnar sínar og spjalla um tilurð þeirra og sögu.

Dagskrá hvers kvölds verður kynnt sérstaklega hér á heimasíðu Ármanna sem og á heimasíðu FOS.IS sem skipuleggur viðburðinn, nú eins og undanfarin þrjú ár.