Febrúarflugur 12.febrúar

Á Febrúarflugukvöldi í Árósum á morgun, mánudaginn 12. febrúar gefst gestum kostur á að kynnast tilurð einnar af spútnik-flugum aldarinnar, Frigga. Höfundur Frigga, Baldur Hermannsson mætir í Árósa og segir frá tilurð flugunnar og sýnir gestum hvernig eigi að bera sig að við að hnýta hana svo vel sé.

Þeim sem þekkja til ætti ekki að koma á óvart að höfundinum er umhugað að flugan sé hnýtt rétt og úr réttum hráefnum. Þeir eru víst fáir veiðimennirnir sem hafa ekki í það minnsta reynt fluguna í fiski eða í hnýtingarþvingunni og lengi vel var talað um ‚leynivopnið Frigga‘ eða ‚ofurfluguna Frigga‘ og margar ótrúlegar sögur sem sagðar hafa verið af þessari flugu frá því uppvíst varð um tilvist hennar.

Af gefinni reynslu síðasta Febrúarflugukvölds, þá verður bætt við hnýtingaraðstöðuna því ljóst var að færri komust að heldur en vildu. Sem fyrr, þá er öllum heimill aðgangur, hvort heldur til að hlýða á og fylgjast með Baldri eða hnýta nokkrar flugur, já eða bara hvoru tveggja. Húsið opnar stundvíslega kl.20:00 og Árósar eru auðvitað í Dugguvogi 13.

Fyrsta Febrúarflugukvöldið tókst með eindæmum vel. Jón Aðalsteinn Þorgeirsson fór af sinni alkunnu snilld yfir sögu Galdralapparinnar og sýndi handtökin við hnýtingu hennar. Fjöldi gesta sat við þvingurnar og settu í hverja fluguna á fætur annarri og það er óhætt að segja að kvöldið hafi verið vel heppnað í alla staði og þátttaka góð þrátt fyrir vott af ófærð í hverfinu.