Úthlutun og sala veiðileyfa

Stakkavík við Hlíðarvatn

Síðustu eftirlegukindur úthlutunar eru að skila sér í hús þannig að staðfestingar á úthlutunum verða sendar félagsmönnum með tölvupósti á allra næstu dögum. Samhliða verða kröfur fyrir veiðileyfum stofnaðar í heimabanka félagsmanna. Eftir eindaga verða staðfest veiðileyfi send með sama hætti til félagsmanna, þ.e. með tölvupósti og geta menn þá valið að vista þann póst í símum sínum eða að öðrum kosti prenta hann út til staðfestingar á keyptum dögum.

Fjöldi umsókna þetta árið var töluverður og eins og útlitið er núna, þá er maí að fullu bókaður og júní að þremur fjórðu, júlí seldur að hálfu en töluvert laust í ágúst og september.

Vegna fjölda fyrirspurna um fyrirkomulag sölu á lausum dögum eftir úthlutun þykir rétt að koma eftirfarandi á framfæri. Sú hefð hefur skapast að setja lausa daga eftir úthlutun í sölu til félagsmanna eftir eindaga veiðileyfa sem að þessu sinni er 5. mars. Þetta fyrirkomulag hefur verið viðhaft þannig að unnt sé að setja ógreidda daga aftur í sölu til félagsmanna.

Lausu dagarnir verða seldir með fyrirkomulaginu; fyrstur kemur, fyrstur fær og fer fram á heimasíðu Ármanna. Lausir dagar hafa verið seldir í 3 – 4 vikur, sem þetta árið lætur nærri að sé 4. apríl þegar Flóamarkaður Ármanna verður haldinn í Árósum. Eftir þann tíma verða lausir dagar settir í almenna sölu á leyfi.is og þá á nokkuð hækkuðu verði.