Palli hnífasmiður í Árósum

Miðvikudagskvöldið, 14. febrúar verður Páll Kristjánsson hnífasmiður í Árósum og sýnir og spjallar um hnífa og hnífasmíði. Palli hnífasmiður er löngu þekktur hér heima og erlendis fyrir einstaka hnífa sína. Innblástur sinn sækir Palli beint til Íslenskrar náttúru og það fer ekkert á milli mála að andi víkinga svífur yfir vötnum þar sem hnífarnir hans eru annars vegar.

Palli nýtir íslenskan efnivið í skefti hnífanna; hreindýr, bein og horn sauðfjár og kúa, að ógleymdum hvaltönnum og íslenskum við. Hulstur hnífanna hafa ekki síður vakið athygli fyrir hönnun og einstakt útlit, mörg hver hrein og bein listaverk.

Palli verður ekki einn á ferð, því með honum verður sérlegur ráðunautur í hnífabrýningum sem ætlar að miðla af kunnáttu sinni til gesta kvöldsins. Þetta verður eflaust áhugavert og skemmtilegt kvöld og félagsmenn eru hvattir til að taka með sér gesti.

Húsið opnað stundvíslega kl.20:00 að vanda, heitt á könnunni og kexbrot á bakka.