Að loknum aðalfundi

Ármenn héldu sinn 44. aðalfund þann 7. mars undir nokkuð hefðbundinni mætingu félagsmanna. Síðasta starfsár félagsins var öflugt eins og aðsókn að félaginu og viðburðum þess ber vitni um.

Einn stjórnarmaður, Eiríkur Stefánsson kláraði sitt sjötta ár í stjórn á þessum aðalfundi og í stað hans var sjálfkjörinn Jón Viðar Óskarsson. Fyrir hönd félagsins langar mig að þakka Eiríki fyrir einstaklega ötult og gott starf á þessum árum. Á sama tíma vil ég bjóða Jón Viðar velkominn í hóp stjórnarmanna og þykist vita að hann liggi ekki á liði sínu frekar en endranær. Stjórn hefur enn ekki skipt með sér verkum, en útlit er fyrir að einhver stólaskipti verði þar sem manna þarf embætti varaformanns sem Eiríkur gegndi. Jafnframt hefur Garðar Þór Magnússon óskað eftir því að klára sitt sjötta ár í stjórn án embættis, en hann hefur gengt starfi ritara við góðan orðstír í allnokkur ár.

Þegar þetta er ritað eru 328 félagar skráðir í Ármenn og nýliðun var rétt um 12% á síðustu 12 mánuðum. Það hlýtur að vera fagnaðarefni alls félagsskapar að njóta velgengni sem þessarar og þeirrar athygli sem félagið nýtur.

Fyrir stjórn og nefndum Ármanna liggja ætíð næg verkefni og svo verður vonandi áfram. Starf síðasta árs hefur einkennst af öflugu og góðu framlagi félagsmanna til dagskrár og verka. Ég hef sem formaður á fyrsta ári verið þeirrar gæfu aðnjótandi að allir félagar sem ég hef leitað til hafa verið reiðubúnir til jafnt smærri sem stærri verka. Einmitt í þessu liggur styrkur Ármanna sem félags um stangveiði á flugu, félags sem hver einasti félagi má vera stoltur af.

Fram til vors verður starf félagsins með nokkuð hefðbundnu sniði. Framundan eru í það minnsta þrjú hnýtingarkvöld á mánudögum, Flóamarkaður Ármanna þann 4. apríl, veiðistaðakynningar, að ógleymdum Vorfagnaði Ármanna sem verður 21. apríl. Síðustu helgina í apríl bregðum við okkur bæjarleið og stefnum á Hlíðarvatn í Selvogi þar sem við tökum til hendinni, þrífum það sem þrífa þarf bæði utandyra og innan, gerum klárt fyrir tímabilið sem hefst að vanda þann 1. maí.

Björtustu spár okkar fyrir maí gera ráð fyrir því að við færum okkur út fyrir veggi félagsheimilis, leggjum Skegg og skott til hliðar og tökum upp Kast og kjaftæði. Þau mánudagskvöld sem þannig viðrar til munum við halda uppteknum hætti að vori, hittast á Klambratúni og teygja á línum og stirðnuðum vöðvum eftir veturinn. Tökum léttar æfingar með stöng í hönd á túninu og hver veit nema hússtjórn Árósa bjóði upp á kaffi og með því.

Hvað sumarið færir okkur í Selvoginum eða að Fjallabaki þori ég ekki að spá fyrir um, en ef það verður í einhverjum takti við vetrarstarfið okkar, þá verður það svo sannanlega gott.

Með kærri kveðju,

Kristján Friðriksson, formaður Ármanna