Flóamarkaður 4.apríl

Nú líður að páskum og starf félagsins tekur sér örlítið hlé fram til 4. apríl þegar árlegur Flóamarkaður Ármanna verður haldin í Árósum. Síðustu ár hefur legið við að H&M röð hafi myndast utan við Árósa í aðdraganda Flóamarkaðarins og því rétt að ítreka að dyrnar verða ekki opnaðar fyrir viðskiptavinum fyrr en kl.20:00 og það er nægt rými fyrir alla, óþarfi að troðast.

Að vanda verður félagmönnum gefinn kostur á að selja notað og nýtilegt veiðidót á Flóamarkaðinum til að skapa pláss fyrir nýtt dót í skápunum. Því væri tilvalið að standa örlítið upp frá páskaeggjum og öðru góðgæti á næstu dögum og taka það til sem félagar eru tilbúnir að láta frá sér fyrir sanngjarnt verð.

Þar sem Ármenn eru með eindæmum hógværir og lítið fyrir að trana sér fram, gefst þeim nú kostur á að fá þrautreynda sölumenn til að koma veiðidótinu á framfæri fyrir sig. Eina sem menn þurfa að gera er að mæta í Árósa með dótið, merkja það verðhugmynd og hvísla að sölumönnum hvað þeir séu reiðubúnir að slá af verðinu ef áhugasamur kaupandi er eitthvað tregur. Sölumennirnir munu síðan taka að sér að ota og pota þessum vörum að viðskiptavinum á Flóamarkaðinum. Opnað verður fyrir vörumóttöku kl.19:00 þann 4. apríl.

Ármenn gera ráð fyrir að selja eitthvað af hrosshárabirgðum sínum og öðru hnýtingarefni sem hefur safnast að félaginu á liðnum árum, auk þess sem þekktir velunnarar félagsins munu slást í hópinn og selja vörur sínar líkt og undanfarin ár.