Veiðileyfi og Flóamarkaður

Sala eftir úthlutun hefur gengið ágætlega þessa rúmlegu viku sem hún hefur staðið yfir. Auðvitað verða stjórnarmenn staddir á Flóamarkaði Ármanna í kvöld, miðvikudagskvöldið með lista yfir lausa daga fyrir þá sem enn hafa ekki tryggt sér bestu dagana í sumar við Hlíðarvatn. Bestu dagarnir eru jú alltaf þeir sem menn nota í veiði og þá er veiðileyfi forsenda. Félagsmenn eru því hvattir til að koma við í Árósum í kvöld og skoða hvað eftir er í pottinum, þetta veiðir sig jú ekki sjálft og lítil von um afla ef dagar falla ónýttir niður.

Þeir sem enn eru tvístígandi með veiðidót á Flóamarkaðinn í kvöld eru hvattir til að mæta tímanlega og koma dótinu í hendur sölumanna sem taka að sér að koma því áfram í hendur áhugasamra kaupenda. Húsið opnar kl.19:00 og markaðurinn hefst formlega kl.20:00. Auk Ármanna verður Veiðikortið á staðnum, JOAKIM‘S mætir að venju og ekki er útséð um að fleiri þekkt nöfn velunnar okkar bjóði vörur sínar á markaðinum.