Skegg og skott 9.apríl

Nú eru margir veiðimenn farnir á stjá, sumir egna fyrir sjóbirting, aðrir byrjaðir að renna fyrir staðbundinn fisk í ám og lækjum. Eitthvað hefur næturfrostið dregið úr mönnum nennuna að fara snemma á stjá, en vísast er kaldara ofan vatnsborðs heldur en neðan þess og víða hafa bæði urriði og bleikja sýnt flugum veiðimanna töluverðan áhuga.

Hvort menn hnýti þekktar vorflugur á mánudaginn í Skegg og skotti, skal ósagt látið, en vísast hafa menn þegar fyllt á þau box sem fyrst eru opnuð að vori. Ef að líkum lætur, þá leynast í þeim flugur eins og Mickey Finn, Black Ghost, Flæðarmús, Orange Nobbler, Dentist og Dýrbítur. Allt flugur sem hafa sannað sig í vorveiðinni í gegnum árin.

Skegg og skott er að venju á mánudaginn kl.20:00 í Árósum, Dugguvogi 13. Heitt á könnunni og sérvalið kex a‘la húsnefnd á boðstólum.