Sumarkveðja

Ó, blessuð vertu, sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár,
nú fellur heitur haddur þinn
á hvíta jökulkinn.

Svo kvað Páll Ólafsson, hagyrðingur og húmoristi á 19. öld og alla tíð síðan hefur þetta ljóð fylgt íslendingum inn í hvert sumarið á fætur öðru. Mörgum þeim sem unna vatni, hvort heldur stríðum strengjum sem kyrrum vötnum, er þetta erindi upprifjum ánægjulegra veiðiferða á liðnum sumrum og gefur ákveðið fyrirheit um enn fleiri góðar stundir á því sumri sem nú gengur í garð.

Nú er skipulagðri vetrardagskrá Ármanna nær lokið, við tekur Vorblótið okkar á laugardaginn og viku síðar tökum við til hendinni í Selvoginum og gerum allt klárt fyrir sumarið við Hlíðarvatn.

Og á þessum tímamótum er okkur ánægja að líta um öxl og skoða það sem vel hefur verið gert á liðnum vetri. Það hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgst hefur með starfi félagsins að við höfum notið meðbyrs og athygli fyrir öflugt félagsstarf. Til marks um þetta má nefna að nálega 1.500 manns hafa sótt viðburði og fundi í félagsheimili okkar frá því í október, félögum hefur fjölgað jafnt og þétt í vetur og sala veiðileyfa í Hlíðarvatn hefur gengið vonum framar. Öflugt félagsstarf er merki lifandi félags og það höfum við Ármenn sannað í vetur.

Að lokum langar mig að biðja félagsmenn um að gefa sé örfáar mínútur til að svara könnun sem tengist rannsókn á viðhorfi almennings til miðhálendis Íslands sem meistaranemi í Landfræði við Háskóla Íslands, Michaël Bishop vinnur nú að. Könnunina má nálgast með því að smella á þennan hlekk. Ármenn hafa sýnt það og sannað frá árinu 1973 að þeim er umhugað um náttúru Íslands og því færi vel á því að þeir tækju þátt í þessu verkefni.

Með sumarkveðju og kærri þökk fyrir veturinn,

Kristján Friðriksson, Ármaður #861

Ármaður í miðju félagsmerkis okkar