Vorfagnaður Ármanna

Óformleg uppskeruhátíð vetrarstarfs Ármanna, Vorfagnaðurinn var haldin í Árósum, laugardaginn 21. apríl og var að vanda vel sóttur. Formaður félagsins bauð félaga og gesti velkomna og hélt stutta tölu um starf félagsins á liðnum vetri. Í lok árvarps var Árni Árnason í Árvík beðinn um að taka við smávægilegum þakklætisvotti frá félaginu fyrir einstaka velvild og stuðning við starf þess á liðnum árum.

Undir veglegum kaffiveitinum tók Ólafur Óskar Jónsson við stjórninni að vanda og dró hvern glæsivinning út á fætur öðrum úr þeim fjölda vinninga sem velunnarar og stuðningsaðilar létu félaginu í té. Sjaldan, ef í nokkurn tíma, hefur happadrætti Vorfagnaðar Ármanna verið jafn veglegt og að þessu sinni og vilja Ármenn færa styrktaraðilum sínum sérstakar þakkir fyrir.