Hlíðarvatnshreinsun 28. – 29. apríl

Hlíðarvatnshreinsun, 28. – 29. apríl

Hefðbundnu vetrarstarfi Ármanna líkur að vanda með Hlíðarvatnshreinsun sem að þessu sinni verður helgina 28. – 29. apríl. Þann dag safnast vinnufúsar hendur Ármanna saman við Hlíðarsel, veiðihús okkar í Selvoginum og skipta með sér þeim verkum sem inna þarf af hendi áður sumarvertíðin hefst.

Fulltrúar Hlíðarvatnsnefndar hafa þegar tekið vettvangskönnun og útlit er fyrir að húsakostur okkar þurfi aðeins lítilsháttar aðhlynningar við, helst þrif og snurfuss í upphafi sumars. Hvort viðri til málningarvinnu á palli ræðst þegar nær dregur, en vitaskuld viðrar alltaf vel í Selvoginum til þrifa og til að plokka það rusl sem á vegi okkar verður.

Ráðgert er að félagsmenn hefji hreinsun upp úr kl.10 á laugardaginn og þeir sem eru duglegastir verða verðlaunaðir með nútíma útfærslu að víðfrægri Hlíðarvatnskjötsúpu; grilluðu lambalæri (heilu eða í hlutum) með kartöflusalati, bernaise og ORA grænum baunum. Þeir sem ná að klára matinn sinn geta svo bleytt í færi ef tími gefst til og þannig tekið smá forskoti á sæluna sem hefst 1. maí við hreint og fagurt Hlíðarvatn.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta tímanlega, því það tekur jú alltaf smá tíma að þræða ströndina frá Mosatanga úr að Nauthólma, en það er hefðbundið svæði Ármanna í Hlíðarvatnshreinsun. Hvort þörf sé á mætingu sunnudaginn 29. ræðst m.a. af veðurfari og þeim verkefnum sem út af borðinu standa í lok laugardags, en hingað til hefur fyrri dagurinn dugar röskum Ármönnum til skylduverka.