Hlíðarvatnsopnun

Hlíðarvatn í Selvogi var opnað af stjórnar- og Hlíðarvatnsnefndarmeðlimum í dag, 1. maí. Veðrið lék við veiðimenn á milli þess að það gustaði hraustlega, slyddaði á köflum og kólnaði. Í lok dags eru það nú samt góðu stundirnar sem standa uppúr og í veiðibók okkar Ármanna er skráður 91 fiskur, þar af tveir urriðar. Það fer ekkert á milli mála að þetta er miklu betri opnun heldur en í fyrra, jafnvel betri en 2016 sem var langþráð metár í veiði. Stærsti fiskur sem skráður er í bók núna er 57 sm. bleikja sem veidd var á Brúarbreiðunni rétt um hádegið í dag.

Það er mál manna að almennt er fiskurinn sérstaklega vel haldin og greinilega nóg af honum og æti í vatninu. Það verða því væntanlega spenntir Ármenn sem sækja vatnið heim í maí sem er fyrir löngu uppseldur og aðeins örfáir dagar lausir í júní fara nú í almenna sölu á leyfi.is ásamt júlí, ágúst og september.