Kast og kjaftæði

Kast og kjaftæði

Kast og kjaftæði gæti farið að drattast fram úr bólinu eftir að hafa legið í dvala frá síðasta vori. Fyrir nýja félaga Ármanna er rétt að skýra örstutt frá því hvað er hér eiginlega á ferðinni:

Kast og kjaftæði er heitið á samkomum Ármanna þar sem þeir hittast, æfa nokkur köst og njóta leiðsagnar hvers annars, dást að góðum köstum og skemmtilegum græjum. Kast og kjaftæði er á dagskrá öll mánudagskvöld í maí, þegar skaplega viðrar, á Klambratúni vestan Kjarvalsstaða kl.20:00. Fyrirvarinn þegar skaplega viðrar hefur stundum vafist fyrir félögum, en gróft viðmið hefur verið að það sé þokkalega þurrt undir fæti og í lofti, ekki of kalt og vindur skaplegur.

Miðað við veðurfar það sem af er maí skal það tekið fram að Kast og kjaftæði snýst ekki um snjókast og að bölsótast út í verðurfar. Veðurspá n.k. mánudags virðist jaðra við það að teljast skapleg, en endanleg ákvörðun um að hittast á Klambratúni er jú í höndum félaga og því ekki úr vegi að fylgjast með á Facebook hópinum okkar; Ármenn – Fyrir félaga eingöngu. Ef þú ert Ármaður en ekki aðili að hópnum, þá er um að gera að skrá sig sem fyrst, fylgjast með og vera virkur í umræðum og spjalli. Hópurinn okkar er líka tilvalinn til að deila myndum, frásögnum og fyrirspurnum sem tengjast veiði.