Færð að Fjallabaki

Ástand vega 13.júní

Færð að Fjallabaki er smám saman að koma til eftir snjóalög vetrarins en það vantar enn nokkuð uppá að þeir vegir sem við bíðum helst eftir að komi undan vetri séu færir öllum bílum.

Eins og ástandið er núna (13. júní) hefur vegur F208 frá Sigöldu og niður í Landmannalaugar verið opnaður fyrir umferð jeppa og jepplinga. En Landmannaleið (F225) frá Landveg (26) að Landmannahelli / Dómadal / Frostastaðavatni er ennþá lokaður fyrir allri umferð.

Samkvæmt upplýsingum frá staðarhöldurum í Landmannahelli er allsendis óvíst að Landmannaleið verði opnuð fyrir næstu helgi, þ.e. 16. & 17. júní og þó svo yrði, þá er svæðið mjög blautt og gróður viðkvæmur á þessum slóðum. Í ljósi þessa og að við Ármenn unnum þessu svæði svo mjög, þá hefur óformleg ferðanefnd Framvatnaferðar tekið þá ákvörðun að nýta varadagsetningu ferðarinnar og færa hana til um eina helgi. Við stefnum því formlega á Framvötn helgina 23. og 24. júní, en þeir sem geta alls ekki beðið geta auðvitað skotist upp að Sigöldu og þaðan niður að Frostastaðavatni þegar þeim hentar.

Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast vel með á heimasíðunni okkar og á Facebook, við munum flytja fréttir af færð og ferðatilhögun um leið og mál skýrast.

Að lokum smá skilaboð til þeirra sem hyggjast leggja leið sína á Fjallabak: Vinsamlegast farið með gát og virðið lokanir og bann við utanvegaakstri. Það tekur viðkvæman gróður hálendisins áratugi að jafna sig eftir ógætilegan akstur undir þeim kringumstæðum sem nú eru á fjöllum.