Upplýsingar um Framvötn

Þar sem útlit er fyrir að margir nýir félagar Ármanna leggi leið sína inn að Framvötnum í sumar, þykir rétt að taka saman nokkrar staðgóðar upplýsingar um svæðið og birta sérstaklega.

Aðkoma að svæðinu

Frá Sigöldu (26): Fjallabaksvegur nyrðri (208) liggur að svæðinu austanverðu, Hnausapolli, Blautaveri, Ljótapolli og Frostastaðavatni. Í venjulegu árferði er vegurinn fær öllum fólksbílum en getur ferið bæði grófur og laus í sér á köflum. Til að komast að öðrum vötnum svæðisins er beygt inn á Landmannaleið (F225) við Ljótapoll.

Frá Landvegi (26) austan Búrfells: Landmannaleið (F225) liggur að Landmannahelli / Dómadal / Fjallabaksleið nyrðri (208) við Ljótapoll. Á leiðinni eru nokkur vöð og eindregið er mælt með að vera á 4×4 eða AWD bílum. Undir Sauðleysu er komið að fyrstu vöðunum. Eystra vaðið yfir Rauðfossakvísl liggur að Dómadal og áfram til austurs. Nyrðra vaðið í átt að Landmannahelli er í raun yfir tvær ár, Rauðfossakvísl og Helliskvísl. Sýna þarf aðgát við öll þessi vöð og kanna þau vel áður en lagt er í þau. Þó þau láti ekki mikið yfir sér, þá getur grjót legið í árfarveginum og þau í raun verið nokkru dýpri en þau líta út fyrir.

Önnur vöð á Landmannaleið eru rétt austan Landmannahellis á Helliskvísl. Vaðið lætur lítið yfir sér og er sjaldnast til trafala, en auðvitað ber að fara rólega yfir það. Síðasta vaðið á leiðinni er síðan við Dómadalsvatn og sé farið rólega yfir það er það enginn farartálmi.

Kort fengið að láni frá FOS.IS

Gisting

Við Landmannahelli hafa Hellismenn byggt upp veglega ferðaþjónustu, nokkur smáhýsi og stærri skála sem hægt er leigja, auk snyrtiaðstöðu og tjaldsvæðis. Vissara er að panta gistingu í húsum með góðum fyrirvara því svæðið er afar vinsælt meðal veiðimanna, gönguhópa og útivistarfólks yfir há sumarið.

Á svæðinu er hið ágætasta tjaldsvæði og hafa margir Ármenn haft þar aðsetur um skemmri eða lengri tíma á undanförnum árum. Ekki er þörf á að panta pláss á stæðinu, en þó vissara að slá á þráðinn til umsjónarmanna í síma 893-8407 ef hópar hyggja á gistingu. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Hellismanna.

Fyrir veiðimenn

Veiðileyfi: Fullgildir félagar Ármanna veiða í Framvötnum án endurgjalds. Félögum ber að framvísa félagsskírteini í Landmannahelli við komuna á svæðið og fá veiðiskýrslu sem geyma skal við framrúðu bíls á meðan veitt er. Kaupa má veiðileyfi fyrir utanfélagsmenn í Landmannahelli.

Veiðiskýrsla: Áður en haldið er heim á leið skal skila útfylltri veiðiskýrslu í póstkassa við gatnamót Landmannahellis / Landmannaleiðar við Fitjafell eða til veiðivarða í Landmannahelli.

Aðstaða: Við Landmannahelli er aðgerðarborð með rennandi vatni og ílátum fyrir slóg og úrgang. Slógi og úrgangi skal aldrei henda í vötnin, né skilja eftir eða grafa á víðavangi.

Agn: Við veiði skal nota agn, lifandi eða dautt, sem fiskurinn eltir og tekur. Ármenn veiða hér aðeins á flugu eins og á öðrum veiðisvæðum félagsins.

Náttúran

Náttúrufegurð svæðisins er ægifögur, en að sama skapi viðkvæm. Hér er sumarið stutt og öll spjöll taka ár eða áratugi að gróa og því eru gestir svæðisins beðnir að gæta varúðar á ferðum sínum, taka með sér allt rusl og grípa með sér það sem fokið hefur frá öðrum gestum svæðisins.