Lausir dagar í Hlíðarvatni

Væn bleikja hjá Valdimari Sæmundssyni

Sala veiðileyfa Ármanna í Hlíðarvatni hefur verið sérlega góð þetta sumarið, ástundun með besta móti og aflatölur eftir því. Tæplega 400 fiskar eru skráðir í bók hjá félaginu og nú eru aðeins tveir dagar lausir í júní, þrjár stangir hvorn dag, stöngin á 6.700,- pr.dag. Lausu stangirnar í júní má kaupa með því að smella hér.

Í júlí eru aðeins fjórir dagar óseldir, þrjár stangir hvern dag en verðið frá og með 1.júlí er 3.700,- pr.stöng á virkum degi og 5.700,- á helgum. Veiðimenn eru hvattir til að skoða lausar stangir í júlí hér og festa sér heppilega daga, því það saxast hratt á lagerinn þegar jafn vel gefur og raunin er þetta sumarið.

Mikið af vænni bleikju hefur verið að koma upp úr vatninu og það vekur athygli að reytingur af sjóbirtingi hefur einnig verið að koma á land. Því miður hefur einnig borið við að regnbogasilungur hafi slæðst inn í vatnið sem er afar einkennilegt því slíkir fiskar ku ekki sleppa úr eldiskvíum frekar en lax að sögn fiskeldismanna.

Birtingur úr Hlíðarvatni