Framvatnaferð um helgina

Nú um helgina stefna Ármenn til fjalla og heimsækja annað af aðal veiðisvæðum sínum, vötnin sunnan Tungnaár, Framvötn. Þegar hafa nokkrir Ármenn heimsótt svæðið á undanförnum vikum en misjöfnum sögum fer að veiði manna eins og gengur. Að vonum hafa veiðimenn lagt leið sína í Frostastaðavatn og staðkunnugir hafa gert ágæta veiði á þeim stöðum sem gefa snemmsumars, væna fiska og ágætlega halda.

Frostastaðavatn er stórt vatn og geymir marga misgóða veiðistaði og ekki sjálfgefið að ókunnugir veiðimenn rati á bestu veiðistaðina í fyrstu heimsókn. Því munu staðkunnugir veiðimenn verða nýliðum innan handar um helgina og miðla af reynslu sinni af stöðum sem gefa vænni fisk og betur haldin. Vatnið er þekkt fyrir að skipta um ham eftir því sem líður á sumarið, sumir staðir sem ekkert gefa að vori koma til þegar líður á sumarið. Eins og áður segir, þá má laða fram upplýsingar um gullmola Frostastaðavatns úr munni reyndari veiðimanna um næstu helgi, en rétt til að vekja athygli á nokkrum fengsælum veiðistöðum þá höfum við fengið lánað kort af vatninu af FOS.IS þar sem þekktir veiðistaðir hafa verið merktir inn og þeir litakóðaðir eftir vænleika fiska (rautt: vænst, appelsínugult: ásættanlegt, gult: smælki eða ófagur fiskur). Höfundur kortsins vill taka það fram að þessar merkingar taka mið af persónulegri reynslu höfundar, ekki vísindalegum rannsóknum.

Ármenn hafa til umráða skála við Landmannahelli frá miðju degi á föstudag og fram á sunnudag. Skálinn heitir Fell og er hin vistlegasti og rúmar 12 – 14 manns með góðu móti.

Fell til vinstri, Höfði til hægri

Þegar hafa fimm manns skráð sig í skála þannig að enn er pláss fyrir fleiri veiðimenn í húsi. Engin sérstök niðurröðun er í skálanum, utan þess að leiðangursstjóri ferðarinnar (Framvatnajarlinn Guðmundur Haukur) á frátekið tvíbreiða fletið næst sameiginlega rýminu.

Ekkert er því til fyrirstöðu að þeir sem ekki hafa tök á að gista geri sér dagsferð í Framvötnin um helgina, munið bara eftir félagsskírteinunum, þá jafngilda veiðileyfi.

Þó hér hafi helst verið tæpt á veiði í Frostastaðavatni, þá eru vitaskuld fleiri vænleg veiðivötn á svæðinu sem félagsmenn eru hvattir til að kanna. Þeirra á meðal eru Ljótipollur, Dómadalsvatn, Löðmundarvatn og Herbjarnarfellsvatn, allt vötn sem fræðast má nánar um með því að smella heiti þeirra.