Silungur á 17 vegu

Nú fer að líða að jólum og þá finnst öllum gott að borða. Margir troða sig út af spekfeitu hangikjéti, aðrir matreiða litla íslenska villihænsnfugla sem kostað hafa blóð, svita og tár, eða hreindýrasteikurnar sem tóku svo sannarlega í axlirnar. Svo er hægt að leita út fyrir landsteinanna í matseldinni og gæða sér á hunangsgljáðri galtarsteik eða risahænu að hætti vesturfara.
Og svo eru öll möguleg mistök í matseldinni falin undir ljúffengri sósunni.

En einn matur er oft á borðum landsmanna um jól, en það er reyktur eða grafinn fiskur. Já, og ef til vill nokkrar bleikjubollur. Sannkallað hnossgæti. En það er líka hægt að gera svo margt fleira við vatnafiskinn okkar.

Við Ármenn búum svo vel að eiga hann Árna Þór matreiðslumeistara sem formann og hefur það verið hans fjarlægi draumur í nokkur ár að matreiða og kynna fyrir okkur silung á sautján vegu. Og það verður gert á morgun, miðvikudaginn 25. nóvember kl 20:00 í Árósum.
Síðustu daga hefur hann unnið baki brotnu að þessum réttum og verða þeir á borðum okkar Ármanna til smökkunar.

1. Hrá bleikja með engifer og soja
2. Venjuleg grafin bleikja
3. Anisfræ-bleikja
4. Anisstjörnu-bleikja
5. Fennilfræ-bleikja
6. Gin og einiber marineruð bleikja
7. Piparrótarrauðrófubleikja
8. Kaffi og vanillubleikja
9. Fjögurrapiparbleikja
10. Sesamsítrusbleikja
11. Garam Masala bleikja
12. Whiskey hunangsbleikja
13. Kardimommubleikja
14. Reykt paprikubleikja
15. Norræn rub-bleikja
16. Heitreikt bleikja
17. Bleikjusúpa

Þetta getur bara ekki floppað!