Veiðileyfisumsóknir

Sælir félagar og gleðilegt nýtt veiðiár.

Nú eru aðeins nokkrir dagar í lokadagsetningu á veiðileyfaskilum. Föstudagskvöldið 15. janúar er síðasti séns og verður póstlúgan á Dugguvogi 13 sérsmurð fyrir átökin. Einnig er hægt að senda umsóknarblaðið á armenn@armenn.is
Veiðimenn eru orðnir virkilega spenntir fyrir Hlíðarvatni og hnýta glásir af nýjum og óþekktum flugum sem eiga að ginna bleikjurnar á land. Svo er orðið sóknarfæri í sjóbirtingsveiðum þar líka eins og kom í ljós í fyrra. Þetta verður spennandi sumar!

Einnig er vert að minnast á Þorrablótið okkar en það verður að vanda þrælskemmtileg samkunda. Fullt af mat, fólki, gleði, gestum og sögum. Meðal annars verður fjöldasöngur með undirspili Guðmundar Hauks hálendiskeisara, ræðumaður sem áður hefur slegið í gegn með hnyttnum skotum og Snorri Heimisson fagottleikari tekur nokkur lög og segir frá þessu merka hljóðfæri.
Þorrablótið verður laugardagskvöldið 23. janúar í Árósum, húsið opnar kl. 19:00 og barinn líka, og verðið er 5900 íslenskar krónur.
Skráningar í Árósum á mánudags- og miðvikudagskvöldum fram að Þorrablóti eða með tölvupósti á armenn@armenn.is.

Og það er tilefni til að minnast á að félagið er virkt á snjáldursíðu veraldarvefsins sem nálgast má hérna.
Ef þú átt erindi í hópinn þá endilega vertu með.

-Stjórnin