Umsóknir og fleira

Jæja, gleðilegt nýtt veiðiár félagar og takk fyrir það liðna.

Nú er að hefjast tími veiðileyfaumsókna, fluguhnýtinga, heilsuátaka, utanlandsferðakaupa og snjómoksturs. Eitthvað af þessu er óumflýjanlegt og hafið þið því öll fengið sendan Áróð í desember en hann inniheldur allar upplýsingar um veiðisvæðin sem við höfum í boði fyrir ykkur þetta árið. Þar á baksíðu er einnig að finna vetrardagskrána okkar. Frestur til að skila veiðileyfaumsóknum er föstudagurinn 13. jan. Svo er um að gera að prófa að ná í Áróð á vefnum en í framtíðinni verður hann borinn fram þar en ekki i gegnum lúguna ykkar.

Og þá er vert að minnast á það að í heimabankann ykkar hefur borist reikningur árgjalds fyrir árið 2017. Í 17. grein laga Ármanna stendur: ‘Aðeins skuldlausir félagar fá úthlutað veiðileyfum.” Innifalið í árgjaldinu er jú algjörlega óheftur aðgangur að dagskrá okkar, kaffi, kexi, kökum og svoleiðis, frí útleiga úr bóka- og myndbandasafninu (VHS) og ekki gleyma gjaldfrjálsri veiði í vötnum að Fjallabaki og svo mörgu öðru.

Aðalfundur Ármanna er 8. mars og þurfa tillögur til lagabreytinga að hafa borist til stjórnar fyrir 15. janúar með tölvu- eða bréfpósti. (Sendist á armenn@armenn.is)
Lög Ármanna er að finna hér.

Skegg og skott byrjar aftur á mánudaginn og verða kúlupúpur meginþemað.

Þorrablótið okkar verður haldið laugardaginn 21. jan og eins og öll hin árin þá vonum við að það verði húsfyllir. Allskonar þorramatur og fljótandi á barnum, skemmtiatriði, tónlistaratriði, hópsöngur og fullt af skemmtilegum Ármönnum. Hvað þarf maður meira? Jú, það þarf að skrá sig á þar til gerðan þátttökulista sem liggur í Árósum eða senda póst á armenn@armenn.is og tilgreina nöfn og fjölda. Nánari upplýsingar um verð og annað koma síðar.

Lengri verður þessi loka ekki að sinni og vonandi hefur eitthvað af þessu komist til skila.