Aðventukvöld í Árósum

Aðventukvöld í Árósum, miðvikudagskvöldið 7. des kl 20:00

Nú er jólamánuðurinn genginn í garð. Honum fylgja ýmsir gallar svo sem stress og asi en svo er það hitt, maturinn. Matur er góður. Sérstaklega sá matur sem við eldum úr okkar eigin bráð. Hvort sem það er fugl eða fiskur þá er alltaf gaman að nostra svoldið við þetta og ég vona að Ármenn eyði ekkert minni tíma í eldamennsku en við veiðarnar. Allavega hef ég bætt á mig nokkrum línuþyngdum eftir að ég byrjaði í þessum dásamlega félagsskap okkar enda er Hlíðarvatnsbleikjan með eindæmum feit og fín – eða kannski er það kexið í Árósum. Það er því við hæfi að kalla til meistara í villibráðarmatreiðslu til að opna hug okkar enn meira varðandi matseldina.

Úlfar Finnbjörnsson endurútgefur Stóru villibráðarbókina sína enn eitt árið en hefur nú bætt við kafla með uppskriftum að laxi, selungi og ál. Hann ætlar að heiðra okkur með komu sinni en hafið það í huga að þegar hann er með bókarkynningu þá er nánast öruggt að eitthvað smakk rati með á borðið.

Og svo til að róa taugarnar mun Eyþór Árnason veiðimaður, sem er að gefa út fjórðu ljóðabók sína núna, lesa nokkur sérstaklega vel valin ljóð fyrir okkur. Bókin „Ég sef ekki í draumheldum náttfötum“ inniheldur meðal annars ljóð um Vatnsdalsá, Svartá og svo bregður Kolbeini Grímssyni einnig fyrir. Sofa Ármenn nokkuð í draumheldum náttfötum?

Árni formaður lofar jólakrydduðu súkkulaði og eitthvað viðbit verður að sjálfsögðu með því.