Opnun Hlíðarvatns

Að vanda hófst veiði í Hlíðarvatni í Selvogi þann 1.maí. Skilyrði til veiða voru með eindæmum góð, veður var hreint út sagt frábært, hlýtt og stillt veður og ekki meiri sól en svo að enginn fiskur fékk glýju í augun. Lífið í vatnið kemur greinilega sterkt inn þetta vorið, mikið æti og fiskurinn eftir því vel haldinn. Nær allir veiðistaðir eru komnir í gang og bleikjan í miklu stuði.

Eftir daginn voru 60 fiskar komnir í veiðibók Ármanna og það vakti athygli að fiskur yfir 40-45 sm. var mjög áberandi í aflatölum. Brúarbreiðan var að vanda vinsæl hjá veiðimönnum, svo vinsæl að mörgum þótti nóg um og héldu sig á öðrum stöðum í vatninu enda enginn ástæða til að hnappast saman á einum stað því vatnið geymir marga góða og fallega veiðistaði sem allir eru komnir í gang. Fengsælustu staðirnir hjá Ármönnum þann 1.maí voru; Mosatangi, Stakkavík, Gamlavör og Guðrúnarvík.
Vorið lofar góður fyrir komandi sumar í Selvoginum.

Skildu eftir svar