Fréttir úr Hlíðarvatni

Veiði fyrstu 9 daga tímabilsins í Hlíðarvatni hefur verið með ágætum þrátt fyrir að vordagar í Selvoginum hafi verið heldur stuttir síðustu daga. Meðal hitastig sólarhringsmælinga síðustu viku hefur verið rétt um 5°C en dagshiti ( 08:00 – 21:00 ) hefur þó náð 8°C að meðaltali. Ekki má þó gleyma því að í sólríku veðri segir lofthiti ekki allt um lífið í vatninu, það eru nokkrir góðir staðir í Hlíðarvatni sem hitna vel í björtu veðri og þar gefur oft vel ef svo ber undir.

Í morgun (föstudaginn 10. maí) voru 120 fiskar komnir í bók hjá Ármönnum og ljóst að meðalþyngd fiska er nokkuð hærri en vanalegt hefur getað talist hin síðari ár í vatninu. Stærsta bleikja í bók er 56 sm. og veiddist hún í Guðrúnarvík í upphafi tímabilsins.

Langtímaspá segir okkur að um og eftir miðja næstu viku fari nokkuð hlýnandi í Selvoginum og búast má við að dagshiti hækki um 1-2°C frá því sem verið hefur og vorið heldur þá vonandi áfram af krafti við Hlíðarvatn. Gleymum því þó ekki að þetta er aðeins spá.

Veiðileyfi Ármanna í Hlíðarvatni má kaupa með því að smella á hnappinn hér að neðan:

Kaupa
veiðileyfi

 

Skildu eftir svar