Kast og kjaftæði 27.maí og fleira

Það er mánudagur og það þýðir aðeins eitt; Ármenn koma saman á Klambratúni í kvöld kl.20:00 og metast í fluguköstum og stangareign. Kast og kjaftæði í kvöld þar sem lítillæti Ármann blómstrar í sólinni.

En það er fleira á döfinni hjá Ármönnum. Á miðvikudagskvöldið kl.20:00 verður almennur félagsfundur í Árósum til kynningar á fyrstu grisjunarferð Ármanna í Löðmundarvatn sem farin verður helgina 21. – 23. júní. Undirbúningi miðar vel, græjur, tæki og tól eru að safnast saman og mikill hugur í félögum. Athugið að þessi fundur er ekki aðeins ætlaður þeim sem þegar hafa skráð sig, um er að ræða fund sem er öllum Ármönnum opinn, líka þeim sem eiga eftir að skrá sig í átakið.

Farið verður yfir fyrirkomulag og verð gistingar við Landmannahelli, græjumálin kynnt, tæpt á fyrirkomulagi skráningar á afla og sérstaklega verður farið yfir sporslur Ármanna sem taka þátt í grisjuninni. Þetta verður áhugaverður fundur og félagsmenn eru hvattir til að mæta.

Skildu eftir svar