Takk fyrir komuna

Í dag var árlegur Hlíðarvatnsdagur veiðifélaganna við Hlíðarvatn í Selvogi. Fjöldi gesta heimsótti veiðifélögin og fékk að bleyta færi í vatninu. Ármenn urðu þeirrar ánægju aðnjótandi að vel á fjórða tug gesta heimsótti félagið í dag og viljum við þakka öllum sem lögðu leið sína til okkar fyrir innlitið.

Ritari og formaður Ármanna stóðu vaktina og gættu þess að alltaf væri heitt á könnunni og að svangir veiðimenn fengju grillaðar pulsur í gogginn áður og eftir að þeir héldu til veiða. Aflatölur voru ekki alveg í samræmi við fjölda gesta, en það var einhver reytingur af fiski sem skráður var í bók. Rökstuddur grunur er reyndar fyrir því að töluvert skorti á skráningu afla, þannig að erfitt er að segja nákvæmlega til um hve margir komu á land. Eitt er þó víst, skráðir fiskar voru vænir og vel haldnir, rétt eins og fiskurinn hefur verið það sem af er sumri. Eitthvað smáræði er til af lausum stöngum hjá Ármönnum í lok júní, aðeins meira í júlí og síðar í sumar en þessir dagar verða fljótir að seljast ef áfram veiðist jafn vel og verið hefur. Tæplega 300 fiskar eru komnir í bók hjá Ármönnum á þær þrjár stangir sem félagið hefur í Hlíðarvatni. Lausar stangir má finna á söluvefnum VEIDA.IS með því að smella hérna.

Enn og aftur, takk fyrir komuna og vonandi hafa allir sem lögðu leið sína í Hlíðarvatn á þessum mjög svo fallega degi, haft ánægju og yndi af dvöl sinni í Selvoginum.

Væn bleikja úr Hlíðarvatni í dag

 

Skildu eftir svar