Lærdómsferðin

Nú er farið að styttast í fyrstu ferð Ármanna inn að Löðmundarvatni að Fjallabaki, Lærdómsferðina svonefndu. Markmiðið með þessari fyrstu ferð félagsins er að fara í sameiningu yfir fyrirkomulag og verklagið við Fiskirækt að Fjallabaki, ferja búnað og áhöld upp að Landmannahelli og gera sér sameiginlega glaða stund við Landmannahelli laugardagskvöldið 22. júní.

Framvatnanefndin hefur mælst til þess að þeir hópar sem þegar hafa skráð sig til þátttöku í þessu átaki sendi einn eða fleiri fulltrúa sinn í þessa fyrstu ferð og nú þegar hafa tæplega 20 manns skráð sig í hana. Enn eru nokkur pláss laus í skála sem Hellismenn hafa tekið frá fyrir okkur þannig að þeir sem áhuga hafa á að mæta helgina 21. – 23. júní geta skráð sig hér á síðunni eða senda Framvatnanefnd skilaboð þar um.

Það er gaman að taka það fram að fjöldi félagsmanna ætla að nota tækifærið þessa helgi til að heimsækja Framvötnin í fyrsta skipti og nokkur fjöldi nýrra félagsmanna stefna til fjalla í sumar og ætla að taka þátt í starfinu.

Þeim sem enn eru óráðnir um þátttöku í Fiskiræktar að Fjallabaki, hvort heldur í Lærdómsferðina eða síðar í sumar, er bent á að því fyrr sem þeir skrá sig, því auðveldara er fyrir Framvatnanefndina að skipuleggja sameiginlega ferð og starfið að Fjallabaki. Þegar hafa tæplega 50 aðilar skráð sig í eina eða fleiri ferðir inn að Löðmundarvatni í sumar en það eru margir góðir dagar framundan að Fjallabaki og alltaf þörf á fleiri vinnufúsum höndum.

Leave a Reply