Fréttir af fiskirækt

Fyrsta ferð Ármanna í Fiskirækt að Fjallabaki var um nýliðna helgi. Fjöldi Ármanna stefndi til fjalla á föstudag og fleiri mættu á laugardagsmorgun þannig að úr varð samkoma sem taldi 24 Ármenn og velunnara Framvatna.

Eins og kunnugt er, þá stefna Ármenn á að grisja Löðmundarvatn um 1.720 kg. á þessu sumri og til þess þarf nokkurn útbúnað og margar hendur. Tilgangurinn með þessari fyrstu ferð var m.a. að standsetja og koma öllum búnaði á staðinn og kenna þeim sem litla reynslu hafa af svona starfi réttu handtökin.

Í þessari fyrstu ferð voru net lögð á laugardagsmorgni, vitjað um hluta þeirra síðla sama dag og önnur upp úr kvöldmat. Nær öll tiltæk net voru síðan látin liggja yfir nótt og vitjað um þau árla sunnudags. Það er skemmst frá því að segja að upp úr vatninu voru teknir 1.112 fiskar sem samtals vógu tæplega 150 kg.  Eins og við var að búast var meðalþyngd þeirra fiska sem upp úr vatninu kom ekki mikil, en innan um voru þó nokkrar vænar bleikjur.

Úr handhófskenndu úrtaki afla sem skoðaður var, kom í ljós að 90% fiska var kynþroska og hafði þegar hrygnt eða stefndi í hrygningu í haust. M.v. þá niðurstöðu er greinilegt að fjöldi fiska segir meira en þyngd um mögulegan árangur þessa átaks.

Á heimasíðu Ármanna má finna upplýsingar um þá daga sem félagsmenn hyggjast leggja verkefninu lið á næstu mánuðum, en ljóst er að fleiri handa er þörf til að metnaðarfullt markmið sumarsins náist. Félagar eru því hvattir til að efna í hópa 4 til 6 félaga, bóka sig inn á dagatalið og umfram allt, njóta þess að fara inn að Fjallabaki og leggja starfinu lið.

Þær skráningar sem þegar eru komnar eru:

5. – 6. júlí: 6 manns

7. – 8. júlí: 5 manns

11. – 13. júlí: 3 aðilar

19. – 21. júlí: 4 aðilar (fullbókað í gistingu þann 19. en nóg pláss á tjaldsvæðinu)

11. – 12. ágúst: 6 manns

23. – 25. ágúst: 4 aðilar

Styttri ferðir, jafnvel dagsferðir inn að Löðmundarvatni þar sem félagar koma við í geymslunni og kippa með sér netum til að leggja út frá landi eru vitaskuld kostur fyrir þá sem hafa hug á. Hver og einn getur haft þann hátt á starfinu eins og honum hentar, öll grisjun telur í verkefninu. Muna bara að ganga frá fiskinum í salt í körin við afleggjarann inn að Herbjarnarfellsvatni, netunum í geymsluna við Landmannahelli og skrá á veiðiskýrsluna sem þar er að finna. Þar má einnig finna kort af Löðmundarvatni með reitaskiptingu veiðistaða sem gott er að kynna sér til að sjá hvaða staðir hafa gefið mestan afla.

 

Skildu eftir svar