Dagskrá Ármanna í vetur

Ekki á morgun, heldur hinn, laugardaginn 26. október er fyrsti vetrardagur. Hvort það er hefð eða tilviljun þá hefur vetrarstarf Ármann á undanförnum árum hafist með hnýtingarkvöldi fyrsta mánudag í vetri sem nú ber upp á 28. október.

Dagskrá vetrarins hefur verið raðað á daga og er nú aðgengileg á vef félagsins, sjá hérna. Í starfi félagsins má finna fasta liði eins og venjulega; Hlíðarvatnsuppgjör, Aðventukvöld, Veiðileyfaumsóknir, Þorrablót og Vorfagnað, ásamt hnýtingar- og fræðslukvöldum.

Á 46 árum hefur ótrúleg þekking og reynsla safnast saman innan Ármanna. Nú langar stjórn að gera tilraun til að draga þessa þekkingu og reynslu upp á yfirborðið og fá félagsmenn í auknu mæli til að taka að sér stuttar kynningar / frásagnir á fræðslukvöldum í vetur. Hugmyndin er kljúfa langdregin fræðslukvöld upp í nokkra ör-kynningar (15-20 mín.) að eigin vali félagsmanna. Meðal hugmynda að efni sem hafa komið fram eru; Hvernig vel ég línu, Hvað er alltaf í veiðibílnum, Hvað tek ég alltaf með mér í veiði, Hvernig vel ég stöng, Hvernig brýni ég hnífinn minn, Gott að vita um vöðluviðgerðir o.fl. Nú er lag fyrir félagsmenn að leggja sitt að mörkum og spjalla um hvað eina sem þeim býr í brjósti sem nýst gæti öðrum félögum.

Skegg og skott, hnýtingarkvöld Ármanna verða að vanda á mánudögum. Ármenn eru félag sem snýst um fluguveiði og óhjákvæmilega leita margir til félagsins um leiðsögn við hitt og þetta sem tengist flugum. Til að koma til móts við áhuga byrjenda í fluguhnýtingum vill stjórn félagsins biðla til þeirra ótal mörgu færu hnýtara sem eru í röðum félagsmanna að gefa kost á sér að vera nýliðum og þeim sem vilja skerpa á færni sinni í hnýtingum innan handar á mánudagskvöldum í vetur, taka jafnvel fyrir eina ákveðna flugu og hnýta hana með þeim sem óska leiðsagnar.

Þeim sem vilja bjóða fram krafta sinna til þessara dagskrárliða er bent á að senda stjórn félagsins línu hérna á síðunni eða með tölvupósti á armenn(hjá)armenn.is

Fyrsti almenni félagsfundur vetrarins verður miðvikudaginn 30. október þar sem farið verður yfir framgang og skipulagningu Fiskiræktar að Fjallabaki í máli og myndum. Félagsmenn áorkuðu miklu og góðu starfi í sumar sem leið við Löðmundarvatn en vitaskuld er ekkert svo meitlað í stein að ekki megi bregða út frá skipulagi þessa fyrsta árs. Það væri til marks um öflugt félagsstarf ef félagar mundu sjá sér fært að mæta á þennan fund og tjá sig um álit, reynslu og væntingar til framtíðar í þessu starfi, því eru allir hvattir til að mæta í Árósa, miðvikudagskvöldið 30. október kl.20:00

Stjórn Ármanna

Skildu eftir svar