Þorrablót Ármanna

Þorrablót Ármanna verður haldið laugardaginn 25. janúar 2020. Húsið opnar kl.19:00 og borðhald hefst skömmu síðar. Þorrablót Ármanna er fyrir löngu orðið landsþekktur viðburður sem félagsmenn missa ógjarnan af, nema þá með tár á hvarmi.

Að vanda verður kostnaði stillt í hóf og hægt að raða í sig kjömmum og öðru góðmeti sem tilheyrir Þorra, súru og ósúru eftir smekk hvers og eins. Fátt verður á boðstólum sem fellur að vegan lífstíl, en þess má þó geta að súrar gúrkur eru vegan. Sama má segja um ýmsar fljótandi veitingar sem bjóðast gegn vægu gjaldi við skenkinn.

Hátíðarræða kvöldsins er nú í smíðum og vænta má hnyttinna lýsinga og bersögli í anda Ármanna, enda er ræðumaður kvöldsins, Garðar Þór þekktur fyrir orðheppni og fagrar frásagnir í ræðu og í riti. Að vanda verða raddbönd þanin undir styrkri stjórn Baldurs Sigurðssonar og undirspili okkar sérlega tónlistarstjóra, Guðmundar Hauks.

Hittumst, etum, drekkum, syngjum og verum glöð. Tekið verður á móti þátttökuskráningu hér á síðunni fram til 22. janúar en vitaskuld má einnig senda tölvupóst á armenn@armenn.is með upplýsingum um fjölda gesta, nafni félagsmanns og númeri.

ATH: Lokað hefur verið fyrir skráningu á Þorrablótið 2020.

Leave a Reply