Fréttir frá Ármönnum

Stjórn Ármann sendir félagsmönnum sínar bestu kveðjur í upphafi árs. Síðari hálfleikur vetrarins í félagsstarfinu að hefjast, annasamur og fjölbreyttur að venju.

Fyrst ber að telja að framboðsfrestur til sætis í stjórn Ármanna og frestur til að skila inn tillögum að lagabreytingum rennur út n.k. miðvikudag, 15. janúar. Eitt sæti losnar á aðalfundi félagsins sem haldin verður 11. mars. Skila ber framboðum og lagabreytingum skriflega til stjórnar, með tölvupósti eða skilaboðum hér á síðunni.

En það er fleira sem ber upp á 15. janúar. Þann dag hefjum við móttöku umsókn veiðileyfa í Hlíðarvatn í Selvogi. Líkt og undanfarin ár verður ferlið rafrænt á heimasíðu okkar og verður kynnt rækilega á fundi í Árósum þann 15. Þeim sem óska aðstoðar við umsóknir er bent á að hana verður hægt að fá í Árósum 20. 27. og 31. janúar, en þann dag rennur umsóknarfresturinn einmitt út. Afgreiðsla umsókna fer fram 5. janúar og fljótlega upp úr því ættu veiðileyfin að birtast í heimabanka félagsmanna. Eins og endranær er skilyrði fyrir afgreiðslu umsóknar að viðkomandi sé skuldlaus við félagið, þannig að það er gott að hafa í huga að greiða útsendar kröfur félagsgjalda fyrir 2020 fyrir 5. febrúar. Að þessu sinni verður aðeins Hlíðarvatn í Selvogi í forúthlutun hjá félaginu, en ekki er loku fyrir það skotið að önnur svæði komi til sölu hjá okkur áður en vorar. Verður það kynnt nánar í lok febrúar.

Þorrablót Ármann fer fram laugardaginn 25. janúar og hefst að vanda kl.19:00  Þegar er farið að taka á móti skráningu á blótið á heimasíðu okkar (sjá hér), en vitaskuld má einnig bóka sig með því að senda félaginu tölvupóst. Frestur til að skrá sig á Þorrablótið er til 22. janúar. Þótt glæsilegt félagheimili okkar rúmi fjölda gesta, þá er betra að tryggja sér miða í tíma.

Starfið að vetri í nýju ári verður að mestu með hefðbundnu sniði, Skegg og skott verða að vanda vel flest mánudagskvöld og ef að líkum lætur verða þau jafn vel sótt á nýju ári eins og þau voru fyrir áramót. Fjöldi félagsmanna og gesta hafa mætt það sem af er vetrar og margir nýliðar stigið sín fyrstu skref í hnýtingum þessi mánudagskvöld. Á komandi vikum hyggst félagið koma enn frekar til móts við byrjendur með leiðsögn í fluguhnýtingum á mánudögum sem vonandi verða til þess að gestir félagsins taki ástfóstri við og fái mátulega þráhyggju fyrir fluguhnýtingum.

Fram til vors verða regluleg fræðslukvöld á miðvikudögum og verður efni þeirra auglýst nánar þegar nær þeim dregur. Nokkra veiðistaðakynningar eru í farvatninu þar sem félagar og gestir segja frá völdum veiðistöðum og fara yfir nokkur praktísk atriði sem gott er að hafa í huga á veiðislóð.

Sú nýbreytni verður að kvöldi 6. mars að látið verður reyna á víðtæka þekkingu Ármanna þegar efnt verður til FishQuiz í Árósum. FishQuiz sækir fyrirmynd sína í BarSvar (PubQuiz) þar sem einstaklingar eða smærri hópar etja kappi í laufléttum spurningum sem tengjast stangveiði og öðrum náttúrufyrirbærum. Þar sem þetta verður lauflétt föstudagskvöld verður boðið upp á léttar veitingar og kaffi fyrir þá sem kjósa, auk þess sem eitthvað til að maula verður á boðstólum. Það verður spennandi að sjá hvernig þessi nýlunda fellur félagsmönnum í geð.

Að vanda koma Ármenn og fjölskyldur þeirra saman þegar vorar, að þessu sinni 18. apríl og fagna vori á árlegum Vorfagnaði félagsins en helgina þar á eftir stefna Ármenn í sína árlegu Hlíðarvatnshreinsun í Selvoginum þar sem óþurftir verða plokkaðar og dyttað að Hlíðarseli.

Aðrir viðburðir í félagsheimili okkar sem aðrir aðilar standa fyrir í samvinnu við eða í skjóli félagsins munu verða auglýstir sérstaklega þegar nær dregur. Félagið hefur oft skotið skjólshúsi yfir verðug málefni og samkomur og að þessu sinni eru nokkrar slíkar í deiglunni.

Að þessu sögðu, þakkar stjórn félagsins fyrir liðið ár og vonast til að dagskrá og starf félagsins það sem eftir lifir vetrar höfði til og njóti aðsóknar félagsmanna.

Stjórn Ármanna

Leave a Reply