Umsóknarfrestur og dagskrá í febrúar

Nú líður að lokum umsóknarfrests í forúthlutun í Hlíðarvatn í Selvogi, síðasti séns til þess að skila inn umsókn er á morgun, föstudaginn 31. janúar. Viðvera stjórnarmanna verður í Árósum frá kl.20:00 til kl.21:30 annað kvöld ef einhver telur sig þurfa aðstoð við umsóknir.

Dagskrá félagsins í febrúar verður lífleg og fjölbreytt að vanda. Athugið að allir dagskrárliðir hefjast kl. 20:00, stundvíslega.

3. febrúar verður Skegg og skott að vanda í Árósum, en að þessu sinni munu Ármenn tengja kvöldið við Febrúarflugur og bjóða gestum upp á hnýtingarnámskeið, þeim að kostnaðarlausu. Það verða Ármennirnir Hjörleifur Steinarsson og Hjörtur Oddsson sem leiða hóp leiðbeinenda á námskeiðinu og allir eru velkomnir, félagsmenn sem aðrir.

5. febrúar mun formaður vor, Kristján Friðriksson stikla á milli vatna að Fjallabaki og kynna veiðimöguleika Ármanna í Framvötnum. Nýir félagsmenn eru hvattir til að mæta og kynnast vatnasvæðinu þar sem félagsmenn veiða endurgjaldlaust gegn framvísun félagsskírteinis. Í lok fundar verður tekið við sjálfboðaliðum til að hafa umsjón með fiskiræktarátaki Ármanna í Löðmundarvatni.

10. febrúar verður hefðbundið Skegg og skott í Árósum og eru félagsmenn hvattir til að mæta og hnýta í boxin fyrir sumarið.

12. febrúar mun fáum við góða heimsókn í Árósa, þar sem Kristinn í VEIDA.IS kemur og kynnir fyrir okkur framboð veiðileyfa á vefnum og fer lauflétt yfir það hvernig Ármenn geta keypt veiðileyfi í Hlíðarvatni á sér-kjörum næsta sumar.

17. febrúar verður svo enn eitt Skegg og skott og þá aftur tileinkað Febrúarflugum og nýliðum í fluguhnýtingum. Þeir félagar, Hjörleifur og Hjörtur munu þá aftur taka á móti áhugasömum gestum og annast ókeypis hnýtingarnámskeið í Árósum.

19. febrúar verðu uppbótarkvöld á veiðileyfum Ármanna. Við fáum til okkar fjölda góðra gesta sem kynna nokkur veiðisvæði og í farteski þeirra verða nokkur frábær tilboð til félagsmanna.

24. febrúar verður svo hefðbundið Skegg og skott, þar sem Ármenn og gestir keppast við að hnýta flugur og skeggræða um efni og aðferðir við fluguhnýtingar.

26. febrúar fáum við síðan góða gesti austan úr sveitum sem ætla að renna yfir og kynna það uppbyggingarstarf aðstöðu og fiskistofna sem átt hefur sér stað í Veiðivötnum á umliðnum áratugum. Þetta er gullið tækifæri fyrir þá sem ekki þekkja til Vatnanna að kynnast þeim, já eða endurnýja eða auka við þekkingu sína á þessu vinsæla veiðisvæði.

Munið svo bara að fylgjast með tilkynningum og fréttum hér á heimasíðu okkar eða hópi félagsmanna á Facebook þegar nær þessum dagskrárliðum dregur.

Að lokum langar okkur til að hvetja félagsmenn til að birta myndir af afrakstri fluguhnýtinga í febrúar á Febrúarflugum, annað hvort á Facebook eða Instagram og merkja myndirnar okkar félagi með því að setja #armenn við þær.

 

Leave a Reply