Fram til 4. maí

Ágætu félagar.

Nú hefur samkomubann vegna COVID-19 verið framlengt til 4. maí og því útséð um að hefðbundin dagskrá Ármanna nái sér á strik áður en veiðitímabil okkar hefst þann 1. maí í Hlíðarvatni í Selvogi.

Þeir dagskrárliðir sem falla niður í apríl eru því:

  • 18. apríl – Vorfagnaður Ármanna  í Árósum, Dugguvogi 13 kl. 14:00 – 17:00
  • 20. apríl – Skegg og skott  í Árósum, Dugguvogi 13 kl. 20:00 – 22:00
  • 22. apríl – Opið hús í Árósum, Dugguvogi 13 kl. 20:00 – 22:00

Það ræðst á næstu vikum hvernig vorhreinsun í Selvoginum fer fram þetta árið en gera má ráð fyrir mikið breyttu formi að þessu sinni vegna samkomubanns. Það ætti reyndar ekki að vera vandamál að halda 2ja metra regluna við Hlíðarvatn, þar er alltaf nóg pláss. Hlíðarvatnshreinsun er enn á dagskrá helgina 25. og 26. apríl, nánari fréttir síðar.

Ármenn eru ábyrgur félagsskapur og Hlíðarvatnsnefnd liggur nú undir feldi og ræður ráðum sínum um fyrirkomulag og aðkomu félagsmanna að Hlíðarseli fyrstu dagana í maí, þ.e. á meðan samkomubann er í gildi. Ýmsar útfærslur eru uppi á borðinu, en ekkert afráðið ennþá.

Þó félagsstarfið sé ekki með hefðbundnum hætti þessar vikurnar, hafa stjórnarmenn reynt að leggja sitt að mörkum til að stytta félögum og öðrum veiðimönnum stundirnar með því að setja hnýtingarmyndbönd og ýmsan tengdan fróðleik inn á Facebook í nafni Ármanna. Nú er unnið að því að setja þessi myndbönd inn á YouTube rás Ármanna og tengja þau inn á heimsíðu félagsins. Fyrsta myndbandið mun birtast hér innan skamms og vonandi næst að koma þeim öllum hér inn á síðuna.

Samkomubannið hefur áhrif á fleiri en Ármenn, erlendum veiðimönnum fækkar óhjákvæmilega og nú bjóðast Ármönnum nokkur veiðileyfi á sérkjörum sem dreift verður til félagsmanna á tölvupósti og á lokuðu síðunni okkar á Facebook Ármenn – fyrir félaga eingöngu. Það getur því borgað sig að kíkja á tölvupóstinn sinn þessa dagana eða inn á hópinn á Facebook.

Að þessu sögðu, óskar stjórn Ármanna öllum félagsmönnum gleðilegra páska með von um að þeir fari nú varlega yfir helgina.

Skildu eftir svar