Breyttur veiðitími í maí

Stjórn og Hlíðarvatnsnefnd hafa tekið þá ákvörðun að breyta veiðitíma í Hlíðarvatni í Selvogi þannig að í maí verður veitt frá morgni til kvölds þann dag sem úthlutað hefur verið. Jafnframt hefur verið ákveðið að gisting í Hlíðarseli verður ekki leyfð, en húsið aðgengilegt til skráningar í veiðibók og notkunar aðstöðu, s.s. snyrtingar. Reglur um aukin þrif og sóttvarnir eru aðgengilegar í forstofu Hlíðarsels og eru félagsmenn hvattir til að kynna sér þær vel og fylgja í hvívetna.

Þessi ákvörðun var fyrst og fremst tekin vegna þess að nær ómögulegt er að halda fjarlægðarmörk sem kveðið er á um í auglýsingu heilbrigðisráðherra vegna COVID-19. Líklegt þykir að fjarlægðarmörkunum, sem almennt ganga undir heitinu 2ja metra reglan, verði aflétt 1. júní og þá mun veiðitími aftur færast til kl.18:00 fyrir úthlutaðan dag og til kl.18:00 á úthlutuðum degi. Jafnframt verður þá opnað fyrir gistingu í Hlíðarseli.

Þegar hefur verið haft samband við nær alla félagsmenn sem eiga úthlutað leyfum í maí og almennt hefur verið gerður góður rómur að þessari ákvörðun og haft á orði að Ármenn leggi með þessu sín lóð á vogaskálarnar þegar kemur að félaga- og þjóðarheill, nú sem endranær.

Leave a Reply