Fréttir frá Ármönnum

Nú er fyrsti mánuður tímabilsins okkar í Hlíðarvatni að renna sitt skeið og tæplega 300 fiskar komnir í bók hjá okkur, sem verður allgott miðað við tíðarfar. Frá og með deginum í dag (31. maí) er takmörkunum á viðveru í Hlíðarseli aflétt og veiðitíminn færist til fyrra horfs, þ.e. frá kl. 18:00 fyrir úthlutaðan dag til kl.18:00 á úthlutuðum degi. Eftir sem áður eru félagsmenn hvattir til að viðhafa sóttvarnir í Hlíðarseli, þrífa vel og vandlega áður en skilið er við húsið og sótthreinsa alla snertifleti.

Lausir dagar í Hlíðarvatni eru ekki margir á næstu vikum, júní fullbókaður en góða daga í júlí og ágúst er enn að finna á veida.is Við minnum á afsláttarkóða Ármanna sem veitir félagsmönnum verulegan afslátt frá almennu verði. Félagsmönnum og gestum gefst þó kostur á að veiða gjaldfrjálst í vatninu á Hlíðarvatnsdeginum, þann 14. júní þegar félagið tekur á móti gestum í Hlíðarseli með hressingu og góðu ráðum um flugnaval og veiðistaði.

Stjórn félagsins vill minna á að afhending félagsskírteina 2020 er í Vesturröst, Laugavegi 178. Enn er nokkuð af ósóttum skírteinum og eru félagsmenn hvattir til að sækja skírteini sín við fyrsta tækifæri.

Stefnt er á opnun vega og aðstöðu að Fjallabaki, eigi síðar en 25. júní og þá er möguleiki á fyrstu fiskiræktarferð inn að Löðmundarvatni. Nákvæm dagsetning og fyrirkomulag liggur ekki fyrir, það er hóps hinna viljugu (28 manns) að ákveða. Beðið er með fundarboð þar til línur skýrast með fyrirkomulag gistingar, verð og aðstöðu, sem vonandi skýrist á allra næstu dögum. Þeir félagsmenn sem hug hafa á að leggja þessu starfi lið, eru hvattir til að mæta á væntanlegan fund og slást með í fyrstu ferð.

Leave a Reply