Hlíðarvatnsdagurinn 14. júní

Sunnudaginn 14. júní gefst veiðimönnum gullið tækifæri til að kynnast Hlíðarvatni í Selvogi. Þann dag bjóða veiðifélögin við vatnið öllum sem vilja að koma í Selvoginn að prófa að veiða í vatninu án endurgjalds frá kl. 9:00 til að verða kl. 17:00

Þetta er gullið tækifæri til að koma við hjá einhverju félaganna við vatnið, fá leiðbeiningar um bestu veiðistaðina og þær flugur sem best hafa gefið í sumar. Leyfilegt agn í vatninu er fluga og spónn og gestir eru beðnir um að virða lausagöngubann hunda við vatnið. Veiðimenn eru beðnir um að skrá afla hjá einhverju félaganna við vatnið áður en haldið er heim á leið, vonandi eftir ánægjulegan dag við Hlíðarvatn.

Ármenn munu að venju bjóða gestum sínum upp á hressingu um hádegisbilið, glóðheitar pylsur af grillinu ásamt gúmmelaði og auðvitað verður heitt á könnunni frá morgni og fram undir kvöld.

Veiðifélögin sem standa að Hlíðarvatnsdeginum eru Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar, Stangaveiðifélag Selfoss, Ármenn, Stangaveiðifélagið Árblik og Stangveiðifélagið Stakkavík.

Hér á síðunni má skoða umfjöllun um vatnið, helstu veiðistaði og afla sér annarra gagnlegra upplýsinga.

Leave a Reply