Fréttir frá Fjallabaki

Landmannaleið (F225) opnaði s.l. föstudag og þar með geta Ármenn farið að nýta sér veiðirétt í Framvötnum. Snjóalög að Fjallabaki eru enn nokkur sem sum hver setja hömlur á ferðir okkar á svæðinu. T.d. var ófært austan Landmannahellis um síðustu helgi vegna snjóa og sömu sögu má segja um slóðann inn að Löðmundarvatni. Þessir skaflar bráðna þó hratt  um þessar mundir og væntanlega verður þess skammt að bíða að fært verði austur frá Landmannahelli og inn að Löðmundi.

27.06.2020 – Skaflinn austan Landmannahellis

Vegurinn inn að Ljótapolli og Blautaveri var lokaður yfir helgina, en gert var ráð fyrir að opna hann í þessari viku. Slóðinn upp að Herbjarnarfellsvatni er nokkuð blautur og félögum er bent á að leita upplýsinga hjá skálavörðum í Landmannahelli eða landvörðum áður en lagt er af stað inn að vatninu.

Stærra tjaldsvæðið við Landmannahelli er enn sem komið er ekki opnað vegna bleytu, en minna svæðið inni við Gil hefur verið tekið í gagnið. Félagar með ferðavagna eru beðnir um að ráðfæra sig við skálaverði áður en mætt er á svæðið, þar sem minna svæðið ber tæplega ferðavagna.

27.06.2020 – Stærra tjaldsvæðið við Landmannahelli

Fjölmennur fundur Ármanna sem standa að Fiskirækt að Fjallabaki fór yfir stöðuna þriðjudaginn 30. júní og ræddu fyrstu skref í verkefni sumarsins. Sjá má glærurnar frá fundinum á Fiskirækt að Fjallabaki hér á síðunni. Fyrsta vinnuferð gæti orðið að veruleika helgina 4.-5. júlí, en frekari ferðir ráðast af ástandi vega og slóða austan Landmannahellis. Hópurinn áformar þó s.k. Lærdómsferð, hópferð hinna viljugu, helgina 18. – 19. júlí. Endanleg dagsetning ræðst eins og annað af ástandi slóða og tjaldsvæða við Landmannahelli.

Leave a Reply