Fréttir af Ármönnum

Nú er farið að styttast í starfinu í sumar og bráðlega tekur vetrarstarfið við. Stjórn félagsins hefur þegar komið saman til fyrsta fundar eftir sumarfrí, skipt með sér verkum og sett niður drög að dagskrárliðum sem kynnt verða síðar.
Sú breyting hefur orðið á skipan stjórnar að Hjörtur Oddsson hefur tekið sæti varaformanns í stað Hjalta G. Hjartarsonar, önnur verkaskipting innan stjórnar er óbreytt.
Enn eru örfáir dagar eftir af tímabilinu við Hlíðarvatn, en veiði þar hefur verið með ágætum í sumar. Ekki oft sem tvær veiðibækur þarf til að bóka veiðina, en sú er raunin þetta árið. Það verður spennandi að sjá lokatölur sumarsins.
Aðrar lokatölur eru þegar tiltækar; grisjun Löðmundarvatns færði 438 kg. á land, sem er langt undir markmiðum og væntingum þeirra 40 félagsmanna sem settu nafn sitt við þetta átak í vetur sem leið. Í dag (laugard.26/9) var síðasta ferð inn að Landmannahelli til að ganga frá báti og búnaði í vetrargeymslu, enda vetur genginn í garð víða á hálendinu.

Leave a Reply