Vetrardagskrá Ármanna

Vetrardagurinn fyrsti er 24. október og það hefur verið til siðs hjá Ármönnum að hefja vetrarstarfið fyrsta mánudag í vetri. Þrátt fyrir óvissu um möguleika okkar á samkomuhaldi í Árósum vegna sóttvarnarráðstafana í vetur, þá hefur stjórn félagsins sett saman hefðbundna dagskrá og má finna með því að smella á hnappinn hér að neðan.

Dagskrá
vetrarins

Dagskrá vetrarins er vitaskuld sett fram með þeim fyrirvara að dagskrárliðir geti fallið niður eða verið færðir til með skömmum fyrirvara. Til að halda félagsmönnum upplýstum um þá viðburði sem verða á döfinni í hverri viku, þá verða þeir auglýstir á heimasíðunni og á Facebook á laugardögum í vetur. Í fyrstu bylgju COVID neyddist félagið til að aflýsa fjölda viðburða vegna samkomutakmarkana sem þá voru í gildi en við vonumst til að svo verði ekki raunin í vetur.

Hverjar sem samkomutakmarkanir verða þá munu Ármenn tryggja sóttvarnir í Árósum eins og frekast er unnt innan þess ramma sem okkur er settur. Spritt til útvortis notkunar verður eins víða og þurfa þykir, aðskilnaður gesta eins og reglur segja til um og fjöldi í húsi takmarkaður eins og þarf.

Ef svo illa vill til að við getum ekki haldið uppi því sem næst eðlilegu samkomuhaldi í vetur, þá munum við leita allra leiða til að stytta mönnum stundir með útsendingum og viðburðum á vefnum líkt og við gerðum í vetur sem leið.

Að lokum vill stjórn félagsins hvetja alla sína félagsmenn til að viðhafa persónubundnar sóttvarnir, hvort heldur í frítíma eða í starfi félagsins. Saman tökumst við á við þennan ófögnuð sem herjar á okkur og saman munum við kveða hann í kútinn.

Leave a Reply