Hátíðarkveðja frá Ármönnum

Nú líður brátt að lokum þessa sérstaka árs í starfi Ármanna. Það var rétt svo að okkur tækist að hefja árið með hefðbundinni veiðileyfaúthlutun og Þorrablóti áður en samkomum og fundum var frestað fram til vors vegna COVID-19.  Ákveðið var að fara að öllu með gát í Selvoginum í maí og því var viðvera takmörkuð verulega í Hlíðarseli þar til slaknaði á fyrstu bylgjunni.

Þó starf félagsins hafi sloppið vel frá þessari óáran, þá er því miður ekki svo farið um alla okkar félaga og við höfum fylgst með nokkrum þeirra veikjast alvarlega. Við sendum þeim okkar bestu kveðjur og vonumst til að hitta þá hressa á nýju ári.

Nýtt ár færir okkur væntanlega nokkrar áskoranir í starfi og leik. Hvenær við náum að hittast í hefðbundnu starfi er undir okkur öllum komið og þeim árangri sem mun nást í að kveða þennan skolla niður sem herjar á samfélagið. Verkefnin eru ærin og af nógu að taka því fyrirséð er að Ármenn flytjist búferlum í byrjun árs. Gengið hefur verið frá kaupum á nýju félagsheimili að Hverafold 1-3 og nú bíða lyklar þess eftir því að fyrstu kassarnir neðan úr Dugguvogi komi í hús og líf færist í nýtt félagsheimili.

En hvað sem húslyklum líður, þá eru það félagarnir í Ármönnum sem eru lykillinn að gróskumiklu starfi hvernig svo sem það fer fram og vonandi færir nýtt ár okkur tækifæri til að hittast og njóta góðra stunda saman sem fyrst.

Gleðilega hátíð og hafið þökk fyrir félagsskapinn á árinu sem er að líða. Hittumst heil á nýju ári.

Stjórn og nefndir Ármanna.

Leave a Reply