Framboðskynning

Á 47. aðalfundi Ármanna verður kosið um tvö sæti í stjórn félagsins. Það er merki um öflugt félag að ekki verði sjálfkjörið í þau sæti sem losna í stjórn og því ber að fagna.

Þriðji frambjóðandinn sem kynntur er til sögunnar er Karl Alvarsson og hér fær hann orðið.

Við Sauðlauksdalsvatn á góðum degi

Ég er uppalinn við bakka Elliðaár í Blesugróf. Á sumrin veiddum við strákarnir iðulega í vestari kvíslinni með priki, girnisbút og maðki. Síðar þegar hagurinn vænkaðist, með ABU kaststöng. Hólmurinn milli ánna, trjálaus í þá daga, var leiksvæðið og oftar en ekki kom maður blautur heim að kveldi. Í þá daga rann heitt vatn úr borholu ofar í hverfinu í læk sem lá í gegnum það. Í volgan lækinn sóttu álar í sem við veiddum einnig okkur til skemmtunar.

Síðar á unglingsárunum fór laxinn í Elliðaánum sem var forboðin, að freista. Þá var við veiðivörð Stangveiðifélagsins að etja en sá ók um á rauðum Belg Skóda sem var auðþekktur og sást langt að. Við veiðar þurfti því að fylgjast vel með veiðiverðinum og takast á við laxinn. Þetta var því tveggja til þriggja manna verk. Veitt var með höndum.
Ég flutti úr hverfinu 15 ára og hætti þá að mestu að veiða og byrjaði ekki aftur fyrr en 40 árum síðar þegar ástkær eiginkona mín færði mér fluguveiðisett í jólagjöf.

Eftir að ég eignaðist fluguveiðisettið byrjaði ég strax að takast á við að nema nýja tækni við veiðar með flugu og varð strax hugfangin af þessari veiðiaðferð. Síðan eru sumrin undirlögð veiði og eiginkonan bókar mikilvæga viðburði með löngum fyrirvara og utanlandsferðir á sumrum eru á bannlista, eins og smjörið.

Úr Haukadalsá

Stærstu fiskarnir sem ég hef hitt fyrir synda enn í ám og vötnum. Stærsti fiskur sem ég hef sett í var 83cm lax sem veiddist í brúarhyl í Haukadalsá. En þó held ég að viðureign við 69 cm urriða í Stóravatni á Melanesheiði hafi verið skemmtilegri viðureign og alveg virði fyrirhafnarinnar við að komast á staðinn. Hann tók ólívugrænan Nóbler og straujaði þvisvar út með línuna langt inn á undirlínu og viðureignin tók 25 mínútur. Hann syndir enn í vatninu.

Ég hnýti mínar flugur að mestu sjálfur, það er einfaldlega skemmtilegt en afföllin af flugum voru umtalsverð í upphafi og var hvatning til að mæta þeim með hagkvæmari hætti. Margar hafa ekki verið ásjálegar og frekar fælt frá en veitt.

Uppáhalds veiðistaðirnir mínir eru margir, en falleg náttúra, góður félagsskapur, fiskur í tökustuði og gott veiðiveður gera hvern veiðistað uppáhalds. Sauðlauksdalsvatn er m.a. í uppáhaldi.

Að lokum langar mig að geta þess að þátttaka í áhugamannafélagi byggist alltaf á framlagi félagsmanna til að viðhalda starfinu. Það er ekki hægt að vera bara móttakandi góðra verka annarra í slíkum félagsskap heldur verður maður að leggja sitt af mörkum a.m.k. bjóða fram krafta sína til þess sem ég geri nú með því að gefa kost á mér í stjórn Ármanna.

Leave a Reply