Afmælisdagskrá

Sælir félagar

Stjórn og afmælisnefnd hafa unnið að undirbúning að 50 ára afmæli félagsins sem verður með ýmsum hætti.

Skipulögð verður dagskrá í Árósum á afmælisdaginn 28. febrúar n.k. kl. 20:00. Þar munu nokkrir af fyrrverandi formönnum félagsin mæta og halda stutta tölu um það sem minnisstætt  hefur verið úr formannstíð þeirra. Jafnframt verður boðið upp á kaffi og afmælisköku. Þetta verður kynnt nánar þegar nær dregur.

Laugardaginn þar á eftir þ.e. 4. mars. verður opið hús í Árósum frá 13:00-16:00. Þar munu landsþekktir snillingar í hnýtingum sem jafnframt eru félagsmenn, hnýta flugur sýnar. Auk þess sem leiðbeint verður um  efni til hnýtinga og sýndar verða flugur þekktra hnýtara.

Að kvöldi 4. mars verður afmælisgleði þar sem fagnað verður með félagsmönnum með léttum veitingum (á kostnaðarverði) og framsöguræðum. Dagskráin mun hefjast kl. 20. en hún verður kynnt nánar þegar nær dregur.

Í tilefni af afmælinu hefur verið sett á stofn Íðorðanefnd, til að íslenska og samræma eftir því sem við á orða- og hugtakanotkun í stangveiði. Þessa vinnu mun Baldur Sigurðsson #643 leiða en auk hans eru í hefndinni Guðmundur Haukur Jónsson #524, Guðni Kolbeinsson #386, Kristján Jóhann Jónsson #1029 og Árni Þór Sigurðsson #382.  Nefndin mun kynna starfsemi sína sjálf innan tíðar.

Þegar er búið að birta megnið af eldri útgáfum Áróðurs frá árinu 2000. Stjórnin stefnir að því að bæta um betur og koma út a.m.k. völdu efni sem við teljum að höfði til félagsmanna frá fyrri tíð. Baldur Sigurðsson #643 mun tína saman nokkra gullmola sem verða birtir á heimasíðu félagsins læsilegu formati. Jafnframt stendur til að birta Árdaga, samantekt Ragnars Hólm Ragnarssonar #511 úr sögu félagsins á heimasíðu þess á aðgengilegu formi.

Haldinn verður veiðiflugusamkeppni þar sem keppt verður um að hnýta fallegustu og veiðilegustu silungaflugurnar. Ein verðlaun verða veitt fyrir straumflugu og önnur fyrir púpu. Áhersla verður lögð á einfalda og veiðilega flugu. Jón Bragi Gunnarsson #315, Stefán Hjaltested #40 og Skúli Kristinsson #300 sitja í dómnefnd og setja reglurnar. Ein verðlaun að andvirði kr. 50 þúsund verða veitt í hvorum flokki (gjafabréf og veiðidagur í Hlíðarvatni). Reglur keppninnar verða birtar um fljótlega. Stefnt er að verðlaunaafhendingu e.h. 4. mars.

Efnt verður til smásögusamkeppni meðal félagsmanna. Sagnasamkeppni, besta veiðisagan á einni A4 síðu í 12p letri. Þarf ekki að vera sönn en það getur hjálpað, má ekki hafa birst áður. Þriggja manna dómnefnd velur. Við matið verður horft til málfars, skemmtanagildis, dýraverndunar- og náttúrusjónarmiða. Skila  þarf sögunni rafrænt til trúnaðarmanns keppninnar (Karl Alvarsson #985 ásamt dulnefni). Áskilin réttur félagsins til birtingar á verðlaunasögu á heimasíðu félagsins. Aðrar álitlegar sögur sem koma til greina geta hlotið verðlaun með skilyrði um birtingu. Fyrstu verðlaun allt að andvirði 50 þúsund krónur (gjafakort og veiðidagur í Hlíðarvatni). Verðlaunasagan verður lesin upp á afmælisgleðinni 4. mars. NB ef hún vekur ekki hlátur hjá a.m.k. fimm félagsmönnum er áskilnaður um að fella megi niður helming verðlaunafjár.

Til stendur að efna til skoðanakönnunar meðal félagsmanna. Athyglisverður áhugi er á félaginu þar sem fjölmargar umsóknir hafa borist um aðild að því undanfarin árin. Í því samhengi verður kannað hvaðan þessi uppspretta kemur. Einnig verður kannað meðal félagsmanna hvað þeir telja að megi gera til að bæta starfsemi félagins. Sigurður Kristjánsson #857 mun leiða þetta verkefni (stafræn könnun).

Stefnt er að kastkeppni á Klambratúni eitthvert mánudagskvöld í maí.

Haldinn verður flóamarkaður í Árósum miðvikudaginn 15. mars. verður kynnt nánar.

Leave a Reply